0 C
Selfoss
Home Fréttir Fréttir Ungmennaráð Suðurlands ályktar um mikilvæg málefni og krefst aðgerða stjórnvalda

Ungmennaráð Suðurlands ályktar um mikilvæg málefni og krefst aðgerða stjórnvalda

0
Ungmennaráð Suðurlands ályktar um mikilvæg málefni og krefst aðgerða stjórnvalda
Við Gullfoss. Mynd: Helena.

Ungmennaráð Suðurlands kom saman á haustfundi 12. september sl. Í ráðinu sitja ungmenni frá öllum sveitarfélögum á Suðurlandi. Ungmennin eru á aldrinum 15–24 ára og með þeim starfa Gunnar E. Sigurbjörnsson, Gerður Dýrfjörð og Guðlaug Ósk Svansdóttir. Á haustfundi ráðsins voru eftirfarandi ályktanir og tillögur lagðar fram:

Geðræn vandamál
Ungmennaráð Suðurlands hvetur til þess að umfjöllun og fræðsla um geðræn vandamál verði gerð aðgengilegri með almennri kynningu fyrir börn og ungmenni og góðu aðgengi að fagfólki þar á meðal sálfræðingum. Ráðið hvetur til þess að slík fræðsla verði kynnt yngri börnum en gert er í dag og brugðist verði við þessari þörf sem allra fyrst.

Umhverfisvernd og flokkun sorps
Ungmennaráð Suðurlands hvetur öll sveitarfélög til að stuðla að betri flokkun á sorpi á fyrri aldursstigum íbúa í landshlutanum. Einnig eru sveitarfélögin hvött til að vinna miklu meira saman í málaflokknum m.a. í endurnýtanlegum lausnum með sjálfbærni að leiðarljósi.

Húsnæðismál á Suðurlandi
Ungmennaráð Suðurlands hvetur til þess að sveitarfélög á Suðurlandi vinni að því með hlutaðeigandi aðilum að tryggja framboð á litlu og meðal stóru húsnæði. Vöntun og eftirspurn er eftir ódýru húsnæði fyrir ungt fólk bæði til kaups og leigu. Mikilvægt er að tryggja virkan leigumarkað á öllu Suðurlandi.

Félagslíf á aldrinum 16–18 ára
Ungmennaráð Suðurlands hvetur sveitarfélög á Suðurlandi til að tryggja að ungmenni á aldrinum 16–18 ára geti sótt ungmennahús. Félagslíf á þessum aldri er mjög mikilvægt og líka þegar þau eru komin í sína heimabyggð eftir nám og/eða vinnu og einnig um helgar.

Suðurland verði eftirsóknarverður staður til búsetu og vinnu
Ungmennaráð Suðurlands hvetur SASS og sveitarfélög til að laða að fyrirtæki og betur borguð störf í landshlutann. Suðurland hefur til langs tíma verið láglaunasvæði og bæta þarf það með auknum og betri atvinnumöguleikum.

Almenningssamgöngur á Suðurlandi
Ungmennaráð Suðurlands hvetur SASS og Strætó bs til að bæta þjónustu við íbúa á Suðurlandi. Ráðið óskar eftir meira samráði við skipulagningu þjónustu Strætó og telur einnig rétt að samráð um skipulag Strætó þurfi að vera víðtækara m.a. við skóla, íþróttafélög og önnur hagsmunafélög. Ráðið telur að þjónusta Strætó sé óhagstæð fyrir þá sem þurfa og vilja nota þjónustuna t.d. ungmenni og aldraða.

Húsnæðisvandi framhaldskólanemenda á Suðurlandi
Ungmennaráð Suðurlands skorar á ráðherra mennta- og menningarmála til að leysa húsnæðisvanda framhaldskólanemenda á Suðurlandi og vinna að heildstæðri lausn fyrir landshlutann um heimavistarúrræði. Framhaldskólinn á Selfossi FSu er stærsti framhaldsskólinn í landshlutanum og brýnt er að nemendur sem búa ekki á Selfossi hafi heimavistarúrræði til að geta sótt skólann. Ráðið leggur sömu áherslu fyrir aðra framhaldsskólanemendur í landshlutanum þ. á m. nemendur í Framhaldsskólanum Austur-Skaftafellssýslu FAS á Höfn, en þar er engin heimavist í boði. Skýrt kemur fram í 29. gr. Barnasáttmála Sameinuþjóðanna að öllum aðildarríkjum ber að koma á skólaskyldu, gera ráðstafanir sem stuðla að reglulegri skólasókn og reyna að draga úr brottfalli nemenda.