-7.1 C
Selfoss

Árborg styrkir ljósmyndaverkefni Héraðsskjalasafnsins áfram

Vinsælast

Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að veita áframhaldandi styrk til ljósmyndaverkefnis Héraðsskjalasafns Árnesinga. Verkefnið hefur verið í gangi frá árinu 2011 þegar Héraðsskjalasafn Árnesinga ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga og Héraðsskjalasafni Skagfirðinga fengu styrk til fimm ára frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti vegna atvinnuskapandi verkefnis við skönnun og skráningu ljósmynda. Sveitarfélagið Árborg hefur styrkt verkefnið frá upphafi en aðkoma þess tryggir því not á ljósmyndum í vörslu safnsins á heimasíðu sveitarfélagsins, við kynningar, á bæjarhátíðum, söguskiltum o.s.frv. sveitarfélaginu að kostnaðarlausu á meðan á verkefninu stendur.

Enn er mikil vinna framundan við skönnun, skráningu og miðlun á þeim ljósmyndum sem þegar hafa borist safninu þrátt fyrir að mikið hafi áunnist. Yfir 300.000 ljósmyndir eru nú í vörslu Héraðsskjalasafns Árnesinga og enn berast ljósmyndir á safnið. Nú eru rúmlega 105.000 ljósmyndir aðgengilegar á vef skjalasafnsins myndasetur.is sem er einn stærsti vefur sinnar tegundar á landinu. Flestar eru myndirnar frá Selfossi og nágrenni.

Nýjasti þáttur ljósmyndaverkefnisins eru greiningarfundir sem fór af stað síðasta vor. Á fundunum kemur fólk saman og leitast við að greina fólk, staði o.fl. á ljósmyndum sem starfsmaður Héraðsskjalasafnsins varpar upp á tjald. Fundirnir fara fram annan hvern föstudag í sal á 3. hæð Ráðhúss Árborgar og standa frá kl. 10:00 til kl. 12:00. Næsti greiningarfundur fer fram föstudaginn 6. október og er opinn öllum áhugasömum.

Nýjar fréttir