14.5 C
Selfoss

Alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að sjá hjá Flying Tiger Copenhagen á Selfossi

Vinsælast

Um síðustu helgi opnaði Flying Tiger Copenhagen að nýju á Selfossi eftir gagngerar breytingar og endurnýjun. Verslunin hét áður Tiger og er Sunnlendingum að góðu kunn. Til að forvitnast um þessar nafnabreytingar og þær nýjungar sem kynntar voru um helgina var Arnar Þór Óskarsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Flying Tiger Copenhagen, beðinn að svara nokkrum spurningum.

Arnar Þór Óskarsson framkvæmdastjóri Flying Tiger Copenhagen á Íslandi.

Í hverju felast þessar breytingar aðallega?
„Flying Tiger Copenhagen er danskt hönnunarfyrirtæki og verslunarkeðja sem hefur stækkað gríðarlega hratt á undanförnum árum. Í dag eru yfir 800 verslanir á heimsvísu allt frá Tokyo og Seoul til Mílanó, Barcelona, París, New York og Selfoss. Svo eru auðvitað fimm verslanir á Íslandi.
Það kom í ljós að erfitt væri að verja vörumerkið Tiger á svona mörgum mörkuðum og einnig var það vilji eigenda að tengjast betur Danmörku þar sem við gefum okkur út fyrir að vera hönnunarmerki og dönsk hönnun auðvitað mjög hátt skrifuð. Flying Tiger Copenhagen er því nýtt nafn sem við erum að innleiða á öllum verslunum okkar.
Það er því verið að breyta útliti verslananna í samræmi við nafnabreytingar og um leið að skerpa á innra útliti verslananna. Við erum búin að gjörbreyta verslunum okkar á Akureyri, í Smáralind og í Kringlunni. Síðastliðinn laugardag opnuðum við á Selfossi og næst í ferlinu verður formleg opnun undir nýju nafni á Laugavegi í Reykjavík.“

Þetta hlýtur að vera mikil vinna að breyta fimm verslunum á svo stuttum tíma?
„Já þetta eru miklar tarnir en við erum með mjög öflugt starfsfólk sem aðstoðar okkur og svo fáum við sérstök uppsetningarteymi frá höfuðstöðvunum til að setja upp innréttingarnar. Ásdís Helga Agnarsdóttir, verslunarstjóri á Selfossi, hefur lyft grettistaki í þessum breytingum en samhliða því heldur hún einnig uppi samfélagsmiðlum Flying Tiger Copenhagen á Íslandi.“

En eru einhverjar aðrar breytingar eða nýjungar væntanlegar á komandi misserum?
„Já, Sunnlendingar mega búast við einhverju nýju. Það er fyrst og fremst tvennt sem hefur verið gert í þessu breytingarferli. Það fyrsta er að það hefur verið lögð meiri áhersla á hönnun, þ.e. vörur sem eru hannaðar af stórum hönnunarteymum í Danmörku og gæðin hafa verið að aukast. Flying Tiger Copenhagen fékk meðal annars hin virtu Red Dot hönnunarverðlaun á árinu. Hitt sem er einnig breytt er fjöldi vörunúmera. Í dag eru framleidd um 300 nýjar vörur í hverjum mánuði sem eru á boðstólum í vöruhúsum okkar. Við veljum svo þær vörur sem við teljum henta hverjum markaði fyrir sig. Við höldum því fram að það sé aldrei leiðinlegt að koma í Flying Tiger Copenhagen því það sé alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að sjá.“

Hvernig hefur reksturinn gengið á Selfossi?
„Reksturinn hefur gengið vel og við erum í skýjunum yfir móttökunum síðsta laugardag. Verslunin hér á Selfossi er nokkuð frábrugðin öðrum verslunum okkar. Hún virðist vera meiri áfangastaður en stuttur viðkomustaður. Viðskiptavinir okkar á Selfossi koma sjaldnar en gera stærri kaup í hvert skipti. Í hinum verslununum er meira um minni innkaupakörfu en tíðari viðskipti. Verslunin á Laugavegi í miðbæ Reykjavíkur er svo töluvert frábrugðin, þar sem hlutfall erlendra ferðamanna er mjög hátt.“

Sérðu fyrir þér einhverjar breytingar á verslunarhaldi hér á Selfossi eða í verslunarhaldi yfir höfuð?
„Verslun er auðvitað að ganga í gegnum miklar breytingar með stóraukinni vefverslun og breyttum viðskiptaháttum með tilkomu fyrirtækja eins og Costco, H&M og fleiri sambærilegra aðila. Á sama tíma finnum við aukna kröfu á gæði, upplifun og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, en þar er eitthvað sem margar vefverslanir eiga erfitt með að standa undir. Við leggjum því mikið upp úr upplifuninni við að heimsækja Flying Tiger Copenhagen. Verslanirnar eiga að vera skemmtilegar, fullar af áhugaverðum og sniðugum vörum, litríkar og koma fólki á óvart. Það er markmið okkar að fá fólk til að brosa. Flying Tiger Copenhagen leggur einnig mikið uppúr samfélagslegri ábyrgð. Umræðan um samfélagslega ábyrgð ristir mjög djúpt í öllum hönnunar- og framleiðsluferlum fyrirtækisins.
Við höfum mikla trú á þessari verslun á Selfossi og vonum að við getum staðið undir nafni og fengið fólk oft í heimsókn og það fari brosandi út. Hér eru mikil tækifæri, bæði í stækkandi byggð, auknum straumi ferðamanna og einfaldlega með betri verslun. Við fylgjumst svo náið með skipulagsmálum í bænum, nýjum miðbæ, brúarsmíði o.fl. sem gæti haft áhrif á reksturinn okkar.“

Hvað megum við búast við að sjá á næstunni hjá ykkur?
„Það er líklega best fyrir fólk að fylgjast náið með samfélagsmiðlunum okkar, við erum mjög virk bæði á Facebook (@flyingtigeris ) og Instagram (@flyingtigeris). Þar kynnum við nýjar vörur og herferðir. Þessa dagana erum við að kynna „hygge“ herferð sem gengur út frá danska orðatiltækinu að „hygge sig“. Fullt af skemmtilegum vörum þar sem mikið er lagt upp úr að gera hlutina sjálfur, skreyta og jafnvel föndra og gera heimilið hlýlegra og „hygge”-legra. Svo erum við komin af stað með eina skemmtilegustu herferð ársins sem er Hrekkjavaka eða Halloween. Í þetta skiptið verður Hrekkjavakan undir sterkum áhrifum af mexíkósku afbrigði Hrekkjavöku sem kallast dagur dauðans þar sem beinagrindur og blómaskreytingar eru í fyrirrúmi. Og svo bíða allir auðvitað spenntir eftir jólunum sem eru langstærsti tími ársins hjá okkur eins og flestum öðrum kaupmönnum.“

Nýjar fréttir