1.1 C
Selfoss

Stóra markmiðið er að þetta sé „ofsalega skemmtilegt“

Vinsælast

Í byrjun júní sl. var Örn Þrastarson ráðinn þjálfari kvennaliðs Selfoss í hand­bolta. Honum til aðstoðar er Rúnar Hjálmarsson. Sebastian Alex­andersson hefur þjálfað lið­ið undanfarin ár en hann hætti síðari hluta tímabilsins í fyrra og þeir Grímur Hergeirsson og Árni Steinþórsson tóku við.

Selfossliðið þurfti í lok síðasta tímabils að fara í umspil um sæti í Olísdeildinni. Fyrst voru spil­aðir tveir leikir við HK sem báðir unnust. Síðan var farið í þriggja leikja seríu við KA/Þór sem vannst 3:0. Liðið náði með þessum fimm sigrum að tryggja áfram­hald­andi veru sína í efstu deild.

Þéttur hópur sem er búinn að æfa vel
„Það hefur verið unnið mjög vel með stelp­urnar undanfarin ár. Sebastian gerði vel og Grímur og Árni byggðu síðan ofan á það m.a. með því að gefa fleiri ungum stelp­um séns,“ segir Örn Þrastar­son, þjálf­ari liðsins. „Við Rúnar tókum við liðinu í byrjun júlí, frekar seint, og það ríkti nokkur óvissa um samninga leik­manna. Við byrjuðum þannig séð á núlli. Stelpurnar voru svo fljótar til í að taka slaginn og skrif­uðu undir samninga hver á fætur annarri. Við tveir ásamt frá­bæru teymi og góðri stjórn náðum að mynda þéttan hóp sem er búinn að æfa gríðarlega vel.“

Þær breytingar hafa orðið á leik­manna­hópnum frá síðasta tíma­bili að Adina Ghidoarca og Dijana Radojevic eru farnar utan og Carmen Palamariu þurfti að fara í hnéaðgerð og er því meidd. Tím­inn mun væntanlega leiða í ljós hvort hún held­ur áfram að spila handbolta. Margrét Katrín, fyrirliði frá í fyrra, er hætt m.a. vegna náms í Reykjavík. Auk þess er Hrafhildur Hanna meidd en hún sleit krossbönd í lok síð­asta tímabils. Endur­hæf­ingin hef­ur gengið vel en ekki má búast við að hún verð með liðinu fyrr en í fyrsta lagi eftir áramótin. Marg­ar ungar stelpur eru nú komn­ar inn í æfingahópinn. Af þeim eru sjö stelpur fæddar 2001. Svo er Þuríður Guðjónsdóttir kom­in heim frá Fylki eftir tveggja ára dvöl. Að sögn Arnar þjálfara er hún með mikinn metnað og er búin að æfa gríðar­lega vel. Harpa Brynjarsdóttir er líka komin inn í liðið eftir árs dvöl í lýðháskóla í Danmörku. Hún hafði áður glímt við meiðsli og því ekki spilað lengi. Örn seg­ir hana í góðu formi og hafa æft mjög vel og að hún falli því vel inn í liðið. Það sé mikill styrkur að fá hana og Þuríði bæði í vörn og sókn. Liðið fékk í byrjun tíma­bils nýjan markmann til liðs við sig, Viviann Petesen, landsliðsmarkvörð Fær­eyja. „Við Rúnar sáum hana í leik á móti íslenska landsliðinu í Færeyj­um. Við höfð­­um samband við hana á Facebook og svo gekk bara dæm­ið upp,“ segir Örn. Þórdís Erla Gunnarsdóttir mark­­maður hefur líka tekið fram skóna en hún var á sínum tíma mjög efnilegur markmað­ur en varð fyrir slæmum meiðsl­um. Hún kom til leiks m.a. vegna þess að aðalmark­vörður liðsins á síðasta tímabili, Katrín Ósk Magnúsdóttir, flutti í haust til Danmerk­ur. Auk þess er hinn markvörður liðsins Áslaug Ýr Bragadóttir, barnshafandi.

Kraftur, metnaður og mikil gleði
Örn var spurður hvernig þeir Rúnar hafi lagt keppnistímabilið upp og hver helstu markmiðin væru. „Stóra markmiðið sem við vinnum eftir er að þetta sé „ofsa­lega skemmtilegt“. Við viljum að öllum leik­mönnum finnist gaman að mæta á æfingu, að í öllu sé kraft­ur, metnaður og mikil gleði. Við ætlum svo að sjálfsögðu að halda okkur í deildinni. Það kem­ur ekkert annað til greina. Svo er það bara gamla klisjan að taka fyrir einn leik í einu. Við ætlum að vinna vel í okkar málum, reyna að bæta okkur jafnt og þétt og sjá svo hvað gerist.“

Liðið er núna í upphafi móts nokkuð breytt frá því sem var síðasta tímabil þeg­ar Hrafn­hildur Hanna, Dijana og Adina drógu m.a. vagninn í sókninni. Hefur það ekki áhrif?
„Við erum með gríðarlega mikið af metn­aðarfullum stelpum sem kunna helling í handbolta og eru búnar að vinna mjög vel í sjálfum sér. Þær eiga skilið að fá tækifæri núna. Ég er alveg full­viss um að þær muni standa sig. Það kemur alltaf maður í manns stað. Svo fáum við vonandi Hrafn­hildi Hönnu til baka eftir áramót inn í þéttspilandi lið. Hún kemur vonandi inn í það með enn meiri kraft.“

Það er allt hægt í þessu
Hvernig verður svo deildin í vetur?
„Fram og Stjarnan eru með gríð­arlega sterka leikmannahópa. Þar eru landsliðs­menn í röðum þannig að þessi tvö lið ættu að standa upp úr. En það er allt hægt í þessu eins og við sýndum í fyrsta leikn­um á móti Stjörnunni (Selfoss vann þann leik 32:31). Lið ÍBV kemur svo í þriðja sæti þar á eftir. Svo á ég bara von á baráttu um næstu sæti. Liðin munu taka stig hvert af öðru. Það er eiginlega engin leið að spá fyrir um hverjar koma næstar. Í þessum pakka eru Valur, Haukar og Grótta og von­andi Selfoss. Fjölni var spáð niður en þær eiga eftir að ná í stig hér og þar.“

Ert þú með einhver skilaboð til hand­bolta­áhugamanna á Selfossi?
„Við erum með mikið af heima­stelpum, ungum stelpum sem hafa lagt gríðarlega mikið á sig og munu berjast fyrir sínu í allan vet­ur. Nú eru leikirnir okkar á þriðju­dögum og það væri hrika­lega gaman ef fólk myndi koma og styðja vel við bakið á okkur. Stelpurnar eiga það skilið. Þær munu launa það til baka. Það er alveg klárt. Við finnum mjög sterklega þegar það kemur stuðn­ingsbylgja úr stúkunni. Það mun­aði t.d. öllu í fyrsta leiknum en á hann mættu yfir 300 manns. Það kom rosalegur kraftur úr stúkunni og stelpurnar töluðu um að það hefði hjálpað þeim mikið,“ segir Örn.

Nýjar fréttir