3.9 C
Selfoss

ON og N1 opna hlöðu fyrir rafbíla á Hvolsvelli

Vinsælast

Föstudaginn 15. september sl. opnaði Orka náttúrunnar hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla við þjónustustöð N1 á Hvolsvelli. Næstu hlöður ON verða á þjónustustöðvum N1 í Vík og á Kirkjubæjarklaustri. Frá því ON tók forystu um uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á árinu 2014 hefur fjöldi þeirra hér á landi fertugfaldast.

Það var Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfbjargar, sem tók hlöðuna formlega í notkun. ON hefur kappkostað að hlöðurnar séu sem aðgengilegastar fyrir fatlaða rafbílaeigendur. Viðstödd voru stöðvarstjórar N1 á Hvolsvelli, hjónin Ólafía Ingólfsdóttir og Guðmundur Elíasson, og fjöldi starfsmanna ON með Bjarna Má Júlíusson framkvæmdastjóra í fararbroddi.

Samstarf er lykilatriði
Bjarni Már segir suðurleiðina óðum vera að opnast fyrir rafbílaeigendum sem fjölgi nú sem aldrei fyrr hér á landi. „Við hjá ON ætlum að varða hringveginn með hlöðum og nú eru þær orðnar 17 talsins þar sem fljótvirkar hraðhleðslur standa rafbíleigendum til boða. Á næstunni opnum við í Vík og á Klaustri og undirbúningur við Jökulsárlón er langt kominn,“ segir Bjarni Már. Hann bætir við að þó ON leggi til hleðslurnar sjálfar og upplýsingakerfi þeim tengd, þá komi fjöldi aðila að uppsetningu á hverri hlöðu. „Við hjá ON kunnum samstarfsaðilum okkar – og hér á Hvolsvelli sérstaklega N1 – miklar þakkir. Við höfum skýra sýn á uppbyggingu þessara innviða fyrir umhverfisvænni og hagkvæmari samgöngur og treystum á að fleiri deili henni með okkur svo við getum opnað hringveginn sem fyrst,“ segir Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON.

Fjölbreytt þjónusta
Það eru hjónin Ólafía og Guðmundur sem veita þjónustustöð N1 á Hvolsvelli forstöðu. Þau fagna því að hraðhleðsla fyrir rafmagn bætist nú við þjónustu stöðvarinnar. „Það veit hver maður að umferðin hefur aukist mikið. Þess vegna er ánægjulegt að sjá umhverfisvænni bílum fjölga líka og við viljum gera ferðafólkinu á þeim lífið auðveldara,“ segir Ólafía. „Stefna N1 er að rafmagn verði hluti af vöruframboði þjónustustöðva og er nú unnið að því að koma upp hlöðum í samstarfi við ON hringinn í kringum landið. Framtíðarsýnin er sú að fólk á ferð geti náð sér í orku inni á þjónustustöðinni um leið og bíllinn er í hleðslu fyrir utan,“ að sögn Guðnýjar Rósu Þorvarðardóttir framkvæmdarstjóra einstaklingssviðs N1.

Rafbílum fjölgað mikið
Hlöður ON eru nú 17 talsins og verða væntanlega orðnar fleiri en 20 fyrir árslok. Þær fyrstu voru settar upp í Reykjavík á árinu 2014. Frá þeim tíma hefur rafbílum sem nýtt geta hlöðurnar fjölgað úr 94 í 3.684 í ágústlok 2017. Þetta er fertugföldun í fjölda þessara bifreiða sem sífellt fleiri ökumenn kjósa til að komast á milli staða.

Nýjar fréttir