0.4 C
Selfoss

Ýmislegt á döfinni hjá Bókasafni Árborgar

Vinsælast

Í dag fimmtudaginn 14. september munu félagar í Leshring Bókasafns Árborgar koma saman og fjalla um bók sumarsins sem var bókin „Ég ferðast ein“ eftir Samuel Björk. Í leshringnum er m.a. velt fyrir sér muninum á afþreyingarbókmenntum og fagurbókmenntum. Hugsanlega mun leynigestur mæta í heimsókn. Allir eru velkomnir í leshringinn. Eina skilyrðið er að hafa gaman af bóklestri. Leshringurinn hittist kl. 17:15 í lesstofu bókasafnsins.

Bókasafnið hefur nú aftur tekið við Upplýsingamiðstöð ferðamanna og í tilefni þeirrar viðbótar verður safnið nú opnað kl. 8:00 á morgnana í stað 10:00. Eins og áður verður opið til kl. 19:00 alla virka daga.

Minnt er á rafbókasafnið.is sem allir með gilt bókasafnskort hafa nú aðgang að. Því miður er enn ekki komið íslenskt efni en fyrir þá sem lesa á ensku er þetta kærkomin viðbót. Fólk er hvatt til að nýta sér þessa þjónustu.

Listamaður septembermánaðar í Listagjánni er Guðlaugur A. Stefánsson. Guðlaugur er fæddur og uppalinn á Skriðu í Breiðdal og bera landslagsmyndir hans náttúru heimahaganna fagurt vitni. Guðlaugur er frístundamálari en hefur sótt námskeið til Veru Sørensen. Sýning stendur til 7. október nk. Öllum er hjartanlega velkomið að kíkja í kjallarann – enginn aðgangseyrir og heitt á könnunni.

Heyrst hefur að Bókabæirnir austanfjalls ætli að vera með Bókmenntagöngu á Eyrarbakka fljótlega og Barnabókahátíð í Þorlákshöfn. Í tilkynningu frá safninu segir: „Við seljum þetta ekki dýrara en…“.

Starfsfólk Bókasafns Árborgar hlakkar til vetrarins í samfylgd með gestum safnsins.

Nýjar fréttir