10 C
Selfoss

Bókasafnsdagurinn í Hvergerði

Vinsælast

Á morgun, föstudagurinn 8. september, er alþjóðlegur dagur læsis, en jafnframt halda bókasöfn um allt land upp á bókasafnsdaginn. Markmið bókasafnsdagsins er annars vegar að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í lýðræðissamfélagi og hins vegar að vera hátíðisdagur starfsmanna safnanna og bjóða flest söfn upp á einhverja dagskrá í tilefni dagsins.

Ýmislegt verður í boði á Bókasafninu í Hveragerði í dag. Má þar nefna að kl. 17 mun Helgi Gretar Kristinsson fjalla um viðar- og marmaramálun og sýninguna sína sem sett var upp fyrir Blómstrandi daga. Helgi Gretar er mörgum Hvergerðingum kunnur, m.a. fyrir að hanna merki Hveragerðisbæjar, en hann bjó í Hveragerði á árunum 1989–1999 og flutti þangað aftur 2014. Saumavélar og efni til að sauma eigin bókasafnspoka verða á staðnum, en öll viljum við gera okkar til að draga úr notkun plastpoka. Verðlækkun og frábær tilboð verða á bókamarkaðnum þar sem þetta er síðasti dagur markaðarins. Meðal annars má eignast bækur frítt með því að lesa upp úr þeim. Léttar getraunir liggja frammi og eru verðlaun í boði. Dagurinn verður sektalaus svo allir ættu að drífa sig að skila því sem gleymst hefur.

Það eru því margar ástæður utan þeirra hefðbundnu til að heimsækja bókasafnið á bókasafnsdaginn og hlakkar starfsfólk til að sjá sem flesta lánþega og gesti. Safnið er opið kl. 13:00–18:30. Nánari dagskrá er á Facebook síðu safnsins.

Mynd:

(Sýning Helga)

Frá sýningu Helga Gretars Kristinssonar.

Nýjar fréttir