-7.1 C
Selfoss

Samningar um íþróttamannvirki á Laugarvatni undirritaðir

Vinsælast

Á fimmtudaginn var skrifað undir samninga er tengjast íþróttamannvirkjum á Laugarvatni. Samningarnir sem er á milli Bláskógabyggðar og ríkisins fela það í sér að öll íþróttamannvirki á Laugarvatni færast yfir til sveitarfélagsins. Þar er um að ræða íþróttahúsið, sundlaugina, íþróttamiðstöðina og íþróttavöllinn. Einnig voru gerð makaskipti á landi.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra skrifaði undir samninginn fyrir hönd ríkisins og Helgi Kjartansson oddviti fyrir hönd Bláskógabyggðar. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Alþingis og fer inn á fjáraukalög sem verða lögð fram á þinginu í haust.

Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar flytur stutt ávarp. Mynd: ÖG.

„Sveitarfélagið fær allt land innan þéttbýlisins sem ríkið átti áður og ríkið fær í staðinn land fyrir utan þéttbýlið sem sveitarfélagið átti. Þetta hefur það í för með sér að nú á sveitarfélagið allt landi innan þéttbýlisins á Laugarvatni, getur skipulagt og haft sína stefnu með það allt saman. Svo hefur ekki verið hingað til,“ segir Helgi Kjartansson oddviti.

Helgi bætir við að Bláskógabyggð taki við þeim skuldbindingum sem eignunum fylgja. Húsin séu mörg frekar illa farin og því ljóst að sveitarfélagið þurfi að leggja í mikinn kostnað til að sinna viðhaldi. Húsnæðið verður svo leigt skólunum og íþróttahópar fá afnot af þeim eða geta leigt þau.

Fjöldi nemenda og íbúa á Laugarvatni mæti á undirskriftina. Mynd: ÖG.

Við undirskriftina mættu nemendur Menntaskólans að Laugarvatni, grunnskólans og leikskólans, en þau komu marserandi í skrúðgöngu í íþróttahúsið. Einnig mætti fjöldi sveitunga sem þáði veitingar undirskriftinni að lokinni.

Nýjar fréttir