5.6 C
Selfoss
Home Fréttir Stöndum með sauðfjárbændum

Stöndum með sauðfjárbændum

0
Stöndum með sauðfjárbændum
Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður NV kjördæmis.

Staða og framtíð sauðfjárbúskapar í landinu er í uppnámi vegna boðaðrar 35% lækkunar afurðarverðs til bænda nú til viðbótar við 10% lækkun sauðfjárafurða síðastliðið haust. Gífurlegt tekjutap blasir við sauðfjárbændum sem erfitt verður að mæta, sérstaklega fyrir þá sem eru skuldsettir og hafa ekki möguleika á annarri vinnu meðfram sauðfjárbúskap. Þeim virðast engar útgönguleiðir færar aðrar en að hrekjast frá búskap.

Sauðfjárrækt er grundvöllur byggðar í ákveðnum landshlutum sem mun bresta ef ekkert er að gert í þeim bráðavanda sem greinin stendur nú frammi fyrir.

Þessi staða snertir ekki einungis bændur heldur líka samfélögin í kringum sveitirnar því fjöldi afleiddra starfa eru í kringum sauðfjárbúskap sem verða líka í uppnámi og ekki verður auðvelt að fylla það skarð sem verður í atvinnutækifærum ef rekstrargrundvöllur sauðfjárbúskapar hrynur. Þá eru brostnar forsendur fyrir búsetu margra og byggðaröskun óhjákvæmleg á þeim svæðum sem hafa treyst á sauðfjárbúskap.

Ég óskaði eftir fundi í atvinnuveganefnd fyrir skemmstu til þess að ræða þessa alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna mikils birgðavanda sem kemur til vegna þess að markaðir hafa lokast erlendis, m.a. vegna viðskiptabanns Rússa og sterks gengis krónunnar. Nýgerður búvörusamningur hefur ekki bein áhrif á þessa stöðu, en vissulega voru á honum margir gallar, t.d. framleiðsluhvatar sem byggðust á óraunhæfum væntingum um mikla sölu á lambakjöti erlendis sem ekki er í hendi.

Fyrir atvinnuveganefnd hafa komið hagsmunaaðilar og landbúnaðarráðherra og ljóst er að við megum engan tíma missa ef stjórnvöld ætla að koma til liðs við sauðfjárbændur í þessum miklu og vonandi tímabundnu erfiðleikum sem greinin stendur frammi fyrir.

Lausnir eru til, beitum þeim sem fyrst
Sauðfjárbændur hafa lagt fram sína tillögu að lausn sem er að mörgu leyti skynsamleg en langt því frá sársaukalaus fyrir bændur og ráðherra hefur viðrað sínar hugmyndir og hyggst leggja þær fram sem fyrst. Það er sem sagt komin hreyfing á málið, en gagnrýna má að ekki hafi verið gripið til aðgerða miklu fyrr þegar vandinn blasti við í vor og ráðherra var þá gerð grein fyrir birgðastöðunni og þeim vanda sem af henni stafaði. Orsakirnar eru fyrst og fremst markaðsbrestur erlendis því sem betur fer hefur sala á lambakjöti aukist um 5 til 6% innanlands í ár.

Nú ríður á að stjórnvöld taki höndum saman við sauðfjárbændur með aðgerðum sem taki á þessum birgðarvanda og feli í sér tímabundna útflutningsskyldu. Sú aðgerð er ríkissjóði útlátaminnst, en mikilvægt er að aðrar aðgerðir sem gripið verður til stilli af framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði til framtíðar og að komið verði upp sveiflujöfnunarsjóði í greininni sem og að tengja gæðastýringu við sjálfbærni greinarinnar sem vinnur gegn gróðureyðingu og kjörlendi til sauðfjárræktar verði eflt enn frekar.

Innlend matvælaframleiðsla er keppikefli
Mikilvægt er að gerðar verði ráðstafanir sem bæta stöðu bænda og byggðar í landinu til framtíðar og ná sem mestri samstöðu með aðkomu ríkisins og tryggja að stuðningur hins opinbera nýtist neytendum innanlands sem best.

Hagstæðast er að framleiða sem mest af matvælum til eigin nota hér innanlands. Það tryggir matvælaöryggi, er umhverfisvænt og dregur úr loftslagsmengun sem fylgir innflutningi á matvöru um langan veg. Bændur eru að framleiða góða og heilnæma vöru með lítilli sýklalyfjanotkun og aukaefnum í hreinu umhverfi í nálægð við neytendur og á góðu verði. Greinin skapar fjölda afleiddra starfa og það er hagur allra landsmanna að sveitirnar lifi og að þar byggist upp störf og gott mannlíf til framtíðar.

Núverandi staða er hjalli sem hægt er að yfirstíga og sauðfjárbúskapurinn á mikla möguleika til framtíðar í vöruþróun og markaðssetningu með sínar góðu afurðir. Horfum því með bjartsýni fram á við fyrir hönd sauðfjárbænda og okkar sameiginlegu hagsmuna og vinnum að því að sauðfjárrækt verði áfram sterk stoð í byggðafestu landsbyggðanna.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður NV kjördæmis.