8.9 C
Selfoss

Uppbygging útivistarsvæðis í Nesi

Vinsælast

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að undirbúa uppbyggingu útivistarsvæðis í landi Ness á Hellu. Þar fyrir er myndarlegur trjálundur sem skiptist í þrjú svæði og var hann gróðursettur af framsýnu fólki á sínum tíma. Tilgangur þessa trjálundar hefur alla tíð verið sá að efla útivist íbúa sveitarfélagsins. Í vetur hefur farið fram mikil hugmyndavinna þar sem íbúum sveitarfélagsins var gefinn kostur á að koma sínum hugmyndum á framfæri.

Fjallað var um uppbyggingu útivistarsvæðisins í íþrótta- og tómstundanefnd, atvinnu- og menningarmálanefnd og ungmennaráði. Einnig var óskað eftir hugmyndum á facebook síðu sveitarfélagsins og auglýst í Búkollu eftir hugmyndum.

Eftir mikla hugmyndavinnu var ákveðið að til að byrja með yrði settur upp níu holu Frisbígolfvöllur, aparóla og púttvöllur ásamt útigrilli og bekkjum sem nýtist öllum íbúum. Aðrar hugmyndir sem fram komu voru t.d. snake pitt, strandblakvöllur, bryggja á ána, zip line, leiksvæði fyrir börn, útisvið og fleira.

Til þess að afmarka brautir á frisbígolfvellinum hafa verið gróðursett tré og voru þau sérvalin í samráði við Garðaþjónustu Gylfa. Svæðið verður því ekki einungis skemmtilegt til útiveru heldur einnig gríðarfallegt með fjölbreyttum trjám. Gert er ráð fyrir því að svæðið verði tilbúið og vígt á Töðugjöldum þann 18. ágúst nk.

Nýjar fréttir