-5.9 C
Selfoss

Norrænt vinabæjarmót í Ölfusi

Vinsælast

Norrænt vinabæjarmót var haldið í Þorlákshöfn 5.–9. júlí sl. Rúmlega 50 gestir komu frá fjórum vinabæjum á Norðurlöndunum. Vinabæirnir eru Vimmerby í Svíþjóð, Rygge í Noregi, Skærbæk í Danmörku og Kauhava í Finnlandi.

Tekið var á móti gestunum á miðvikudagskvöldi að íslenskum sið með heimagerðri kjötsúpu í Versölum. Langflestir voru í heimahúsum á meðan móti stóð en þó nokkrir gistu á gistiheimilum bæði hjá Jonna og Jóhönnu á Oddabraut.

Á fimmtudeginum fengu gestirnir kynningu á sveitarfélaginu og fóru í skoðunarferð í Strandarkirkju, Herdísarvík og Krýsuvík. Veðrið var ekki upp á sitt besta en var þó að mestu til friðs á meðan skoðunarferðinni stóð. Um kvöldið snæddu gestirnir heima hjá sínum gestgjöfum.

Á föstudeginum var farið í heimsókn í Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi og eftir það var haldið til Reykjavíkur þar sem gestirnir fengu frjálsan tíma að skoða sig um. Um kvöldið var grillveisla í Versölum þar sem gestir og gestgjafar komu saman.

Á laugardeginum fóru gestgjafar með sína gesti í ýmsar skoðunarferðir og um kvöldið var mótið endað með hátíðarkvöldverði í Versölum. Þar mættu gestir og gestgjafar í sínu fínasta pússi, margir hverjir í þjóðbúningum og það var borðað, sungið og haft gaman fram eftir kvöldi.

Mótið heppnaðist vel og gestirnir voru mjög ánægðir með dvölina og nefndu það sérstaklega hvað sveitarfélagið væri snyrtilegt og íþrótta- og tómstundastarf öflugt miðað við stærð sveitarfélagsins.

Nýjar fréttir