Á fundi bæjarráðs Árborgar 13. júlí sl. var fjallað um málefni er tengjast handboltanum á Selfossi. Þar var tekið fyrir erindi frá Handknattleikssambandi Íslands frá 26. júní sl. varðandi undanþágu til að spila handbolta í íþróttahúsi Vallaskóla á næsta keppnistímabili. Í bréfinu segir: „Að mati forráðamanna HSÍ eru þeir sammála því mati að Iðu húsið sé best til þess fallið að stunda handknattleik á Selfossi m.v. núverandi húsakost. Í ljósi vilja sveitarfélagsins til umbóta á húsnæði Iðu þá hefur HSÍ ákveðið að veita Umf. Selfoss undanþágu til að spila í Vallaskóla næsta keppnistímabil gegn því að gerðar verði endurbætur sem fela í sér að rýmra sé um varamannabekki og súlur klæddar svampi. Undanþágan er veitt til eins árs enda má gera ráð fyrir að þá verði komin samþykkt fyrir endurbótum á húsnæði Iðu.“
Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundinum að hefja formlegar viðræður við Fasteignir ríkisins um endurnýjun á gólfi íþróttahússins Iðu, sem er í umráðum ríkisins.
Á fundinum var einnig tekin fyrir ósk Ungmennafélags Selfoss um að taka við rekstri íþróttahúss Vallaskóla. Eftirfarandi var samþykkt: „Vegna þeirra breytinga sem liggja í loftinu varðandi mögulegan flutning handboltans yfir í Iðu telur bæjarráð ekki tilefni til þess að svo stöddu að færa rekstur íþróttahúss Vallaskóla yfir til UMFS. Bæjarráð felur Braga Bjarnasyni að vinna að enn meira samstarfi við handknattleiksdeildina í tengslum við verkefni á leikdögum o.þ.h.“