3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Kammerkór Suðurlands er magnaður söngkór

Kammerkór Suðurlands er magnaður söngkór

0
Kammerkór Suðurlands er magnaður söngkór

Í aldanna rás var Skálholt höfuðstaður íslensku þjóðarinnar. Þar rak kirkjan skóla og menningin blómstraði og ungir menn héldu svo þaðan út í hinn stóra heim og komu til baka hálærðir með nýjustu strauma af evrópskri menningu og nærðu þjóðina af visku og framfarahug. Við Sunnlendingar eigum í okkar héraði Skálholt, Þingvöll, Haukadal og svo Odda á Rangárvöllum. Bóknámshús Fjölbrautarskóla Suðurlands ber nafn Odda en Snorri Sturluson var fóstraður þar af Jóni Loftssyni öflugasta manni sinnar tíðar. Þess ber að geta að enn er söngurinn vort mál en hann hljómaði á öllum þessum stöðum, ekki síst í Skálholti við tíðir og á kvöldvökum. Nú á Kammerkór Suðurlands 20 ára afmæli en hann var stofnaður í Skálholtsdómkirkju árið 1997 og er skipaður tónlistarfólki víðsvegar að af Suðurlandi og víðar. Hilmar Örn Agnarsson kórstjóri og tónlistarmaður hefur stjórnað kórnum frá upphafi. Hilmar Örn var ráðinn organisti við Skálholtskirkju og stjórnaði þar öflugu tónlistarlífi um árabil, það var líf og fjör í sönglífi Árnesinga á hans árum í Skálholti. Og segja má að söngurinn hafi ómað í Skálholti og geri enn m.a. í gegnum Kammerkórinn eða eins og Davíð Stefánsson sagði í sálminum fræga: „Snert hörpu mína himinborna dís, svo hlusti englar guðs í Paradís.“

Nú fögnum við Kammerkórnum á afmælisári

Kammerkórinn heldur í víking á afmælisárinu, kallar til sín áheyrendur heima og erlendis, gerir sér glaðan dag eins og eðlilegt er á slíkum tímamótum. Tónleikar verða haldnir víða á Suðurlandi í sumar og haust, m.a. í Oddakirkju, Listasafni Árnesinga og í Skálholtskirkju. Fólk er hvatt til að sækja tónleikana og taka daginn frá. Ennfremur verður kórinn fulltrúi Íslands á einni virtustu kórtónleikahátíð heims í London í sumar, Southbank Choir Festival. Þá verður kórinn með tónleika á Iceland Airwaves ásamt Megasi og flytur þar tónlist hans. Svo mikla gleði hefur Kammerkór Suðurlands veitt landsmönnum með söng sínum í 20 ár að mikilvægt er að fyrirtæki og einstaklingar styrki starf kórsins og þessi stóru áform á afmælisárinu. Í tilefni afmælisársins gaf Kórinn út geisladisk þar sem hann flytur tónlist eftir ung íslensk tónskáld. Diskurinn ber nafnið „Kom skapari.“ Hægt er að kaupa diskinn á heimasíðu kórsins. Kammerkórinn mun ennfremur leita til fyrirtækja um að styrkja sig á afmælisárinu.

Guðni Ágústsson, áhugamaður um sönglist.