3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Villtur göngumaður á Fimmvörðuhálsi

Villtur göngumaður á Fimmvörðuhálsi

0
Villtur göngumaður á Fimmvörðuhálsi

Um hálf fjögur í dag voru fjórar björgunarsveitir af Suðurlandi kallaðar út vegna göngumanns sem villtist á Fimmvörðuhálsi. Göngumaðurinn náði sambandi við ættingja sína og var orðinn kaldur og hrakinn.

Á svæðinu er nú vont veður, mikil rigning og frekar hvasst. Gönguhópar eru á leiðinni á Fimmvörðuháls frá Skógum og úr Básum í Þórsmörk. Samkvæmt upplýsingum úr farsíma mannsins er hann líklega nálægt Heljarkambi. Hann treysti sér ekki til þess að ganga og mun björgunarsveitafólk því þurfa að aðstoða hann niður. Ólíklegt er að hægt verði að ná í hann á þyrlu.

Þetta kom fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Uppfært kl. 18:00:
Björgunarsveitarmenn fundu manninn upp úr klukkan fimm en þeir komust langleiðina að honum á sexhjóli. Hann er mjög þrekaður en þarfnast ekki frekari aðhlynningar. Honum var komið til móts við björgunarsveitarbíl rétt sunnan við Fimmvörðuhálsskála og verður honum ekið til byggða.