13.4 C
Selfoss

Nám fyrir lykilfólk innan ferðaþjónustufyrirtækja

Vinsælast

Undanfarin tvö ár hefur Háskólafélagið rekið Erasmus+ verkefni sem gengur út á að þróa nám fyrir lykilfólk innan ferðaþjónustufyrirtækja í samstarfi við tvo erlenda háskóla, Háskólann í Malaga á Spáni/UMA og Háskóla Higlands and Islands í Skotlandi/UHI. Fyrra ár verkefnisins gekk út á að þróa námsefnið með háskólunum annars vegar og íslenskum kennurum hins vegar, og seinna árið – síðastliðinn vetur, fór fram svokölluð „pilot“- eða tilrauna kennsla á námsbrautinni sem lauk núna í vor með sjö útskrifuðum nemendum.

Við undirbúning og skráningu síðastliðið haust var áþreifanlegt hversu erfitt er að fá fólk sem starfar við ferðaþjónustu til þess að skuldbinda sig í nám yfir heilan vetur, jafnvel þó um væri að ræða aðeins 30% af fullu námi. Slíkt er álagið í greininni og erfitt að sjá af stund í meira að segja jafn þarft verkefni og menntunin er.

Af samtölum við áhugasama í upphafi var augljóst að styttri námskeið og sveigjanlegri myndu falla betur í kramið. Þó var ákveðið að láta á þetta reyna og leggja upp með námið eins og upphaflega var hugsað, staðarnám með fjartengingum tvo daga í viku og einn langan laugardag á sex vikna fresti. Tíu eionstaklingar voru skráðir í upphafi, einn heltist úr lestinni rétt fyrir skólasetningu, annar strax í upphafi og þriðji eftir fyrri önnina. Þetta sýnir þann veruleika sem starfsmenn greinarinnar búa við og krefur aðstandendur til þess að skoða hvernig hægt er að mæta þessu fólki sem best.

Góður rómur var gerður að yfirferð málefnisins.

Til þess að svona nám sé lífvænlegt skiptir máli að það eigi erindi til nemenda og þeirra umhverfis. Til þess að fá sem mesta svörun frá nemendunum varðandi gæði kúrsanna fengu þeir sent til sín námsmat þar sem þeir svöruðu spurningum þess efnis. Útkoma þess var framar vonum og alla jafna voru nemendur afskaplega sáttir við nálgun og innihald námsefnisins. Jafnframt voru kúrsarnir sendir til yfirferðar hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála og fengu mjög góða umsögn þaðan.

Því má með sanni segja að námið hafi staðist allar þær væntingar sem aðstandendur og nemendur gerðu. Námsþættirnir sem þróaðir voru með samstarfsaðilunum þóttu raunhæfir, markvissir og upplýsandi og kúrsarnir tveir sem Háskólafélagið bætti sjálft við, samskipti miðlun og tjáning – sem eins og nafnið bendir til hafði með samvinnu og sjálfsskilning að gera, var að þeirra sögn „kirsuberið á toppnum“.

Með þessa góðu reynslu að baki og jafnframt þá glímu framundan, hvernig best sé að ná til þessa hóps, sótti Háskólafélagið um styrk í Fræðslusjóð atvinnulífsins til þess að vinna námsefnið í rafrænt form með það fyrir augum að auðvelda aðgengi sem flestra að náminu. Sú vinna er nú þegar hafin og gert er ráð fyrir að tilrauna kennsla á þeim kúrsum verði strax eftir áramót.

Þann 21.júní síðastliðinn komu samstarfsaðilar verkefnisins á lokafund á Selfossi þar sem farið var yfir feril verkefnisins og rætt um áframhaldandi samstarf milli Háskólafélagsins, UMA og UHI. Jafnframt kynntu aðstandendur verkefnisins það fyrir gestum aðalfundar Háskólafélagsins og tóku spænsku samstarfsaðilarnir fyrir þann þátt sem snýr að samstarfi menntastofnanna og fyrirtækja. Góður rómur var gerður að yfirferðinni og þeirri afurð sem Erasmus+ verkefnið er að skila inn í sunnlenskt samfélag

Nýjar fréttir