Mikil ánægja í Undralandi

Nú fer skólaárið 2016-2017 að styttast í annan endann. Hér á Undralandi flýgur tíminn áfram og alltaf nóg að gera, bæði hjá börnum og starfsfólki.

Í mars fór fram starfsmannakönnun þar sem allir starfsmenn tóku þátt. Þessi könnun er liður í innra mati skólans og mikilvægt tæki til að gera góðan skóla betri.

Það er gaman að segja frá því að starfsmenn eru ánægðir í starfi, þeim líður vel og hlakka til að mæta í vinnuna. Sama var uppi á teningnum með foreldrakönnun sem var í apríl, almenn ánægja með leikskólann og starfsfólk. Eins og áður sagði eru þessar kannanir liður í innra mati leikskólans og niðurstöður nýttar til að bæta starfið.

Góður starfsandi, metnaðarfullt starfsfólk og frábærir foreldrar gera starfið skemmtilegt og gefandi. Gott er að leita til samstarfsfólks og eins stendur foreldrafélagið við bakið á okkur með gjöfum og ýmsum uppákomum.

Hrunamannahreppur hefur metnað til að reka góðan og faglegan leikskóla, til þess að svo megi vera er mikilvægt að huga að innra starfi. Deildarstjórar fá tíma í undirbúning, deildarfundir eru einu sinni í viku og stjórnendateymið fundar einnig einu sinni í viku.

Eins og sjá má af þessari upptalningu er starfið í leikskólanum Undralandi með miklum blóma og við stefnum öll, einhuga, að því að halda áfram þessu góða starfi. Ég læt hér fylgja með svar við bréfi sem sent var til foreldra, kynning á starfsfólki á deildum næsta vetur.

„Takk fyrir fréttirnar sem hljóma vel, barnið blómstar hjá ykkur og ég er mjög ánægð enda allt viðmót starfsfólks svo gott og faglegt starf sem blasir við. Til hamingju Ingibjörg og allir – gleðilegt sumar og við hlökkum til 15. ágúst“

Kveðja frá leikskólanum Undralandi Flúðum