3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Lífið er læsi – einnig á sumrin

Lífið er læsi – einnig á sumrin

0
Lífið er læsi – einnig á sumrin
Hrund Harðardóttir og Þorsteinn Hjartarson.

Í nýlegri læsisstefnu Árborgar er fjallað um megináherslur og markmið í læsi fyrir nemendur í leik- og grunnskólum. Þar eru sett fram viðmið um málþroska, hljóðkerfisvitund, orðaforða, leshraða og lesskilning. Lögð er áhersla á að foreldrar taki virkan þátt í námi barna sinna í samvinnu við skólana með það að meginmarkmiði að skapa besta mögulega námsárangur og velferð nemenda. Það tekst oftast með þrotlausri vinnu bæði heima og í skólanum þar sem foreldrar og fleiri í fjölskyldunni eru mikilvægar lestrarfyrirmyndir, einnig kennarar og annað starfsfólk skóla.

Það sem ritað var í grein ekki alls fyrir löngu á enn við en þar var lestrarástundun líkt við blóma- og trjárækt. Til að ná árangri þarf jarðvegurinn að vera næringarríkur og vökva þarf reglulega í þurrkatíð. Hið sama á við lestrarfærni barna og unglinga, stöðugt þarf að næra lestrarblómin. Ef ekkert er lesið yfir sumartímann er hætt við að lestrarfærninni hraki sem er óskemmtilegt þegar komið er í skólann að hausti. Ábyrgð foreldra er mikil gagnvart stuðningi og lestrarþjálfun barnanna og á það jafnt við alla mánuði ársins. Foreldrar eru hvattir til að hafa lesefni á boðstólum í sumar, hlusta á börnin lesa, lesa fyrir þau, lesa með þeim og vera þeim góð fyrirmynd. Þá er kjörið að heimsækja bókasafn Árborgar þar sem mikið úrval af lesefni er á boðstólum fyrir börn á öllum aldri.

Hrund Harðardóttir, kennsluráðgjafi.
Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri.