1.1 C
Selfoss

Glæsileg eldfjallamiðstöð opnuð á Hvolsvelli

Vinsælast

Um síðustu helgi opnaði Lava eldfjallamiðstöð á Hvolsvelli. Að sögn Ásbjörns Björgvinssonar markaðs- og sölustjóra Lava ríkti mikil eftirvænting og spenna við opnuna eftir rúmlega þriggja og hálfs árs undirbúningstíma. Um er að ræða glæsileg mannvirki og stærstu og glæsilegustu eldfjallasýningu landsins.

„Þetta hefur verið unnið í mikilli sátt við samfélagið hér á Hvolsvelli. Við höfum átt mjög gott samstarf og fengið mikinn stuðning heimamanna við þetta verkefni, ekki síst frá sveitarstjórninni. Síðan hefur líka verið mjög ánægjulegt samstarf við bæði Jarðfræðistofnun Íslands og Veðurstofu Íslands og síðan alla þá sérfræðinga sem hafa unnið með okkur að þessari hugmynd. Þar má nefna arkitektana, margmiðlunarfyrirtækið Gagarín og fullt af öðrum flottum aðilum sem hafa komið að sýningunni. Ari Trausti Guðmundsson er okkar helsti jarðfræðingur í þessari sögu og Marcos Zotes hjá Basalt sýningarhönnuður,“ segir Ásbjörn.

Unnið að uppsetningu margmiðlunarsýningar. Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson.

Ásbjörn segir að þeir sem standi að Lava eldfjallamiðstöð vonist til þess að þeir geti stækkað kökuna fyrir Suðurland þannig að ferðamenn fái enn ríkari ástæðu en áður til að koma inn á svæðið og helst dvelja aðeins lengur. „Við erum að vonast til að við lengjum dvölina hjá þessum ferðamönnum sem koma til landsins, þeir dvelji lengri tíma út á landi og að það komi fram sem samlegðaráhrif til annarra aðila á svæðinu eins og gististaða, veitingastaða og verslana. Þegar upp er staðið er það von mín að þetta komi öllum til góða.“

Hluti af sýningunni í Lava eldfjallamiðstöðinni. Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson.

„Svona sýning sem líklega er að leggja sig í hátt í tvo milljarða króna þarf auðvitað að skila eigendunum arði þegar til lengri tíma er litið. Það er mjög þolinmótt fjármagn sem er búið að standa á bak við þetta hingað til. Þeir vilja auðvitað fá sitt til baka smá saman og þá verðum við að varðveita þetta aðdráttarafl, þennan segul, sem fær fólk til að langa til að koma til okkar. Það gerum við með þessari mögnuðu sýningu sem við erum að opna. Við opnuðum fyrir gesti og gangandi um helgina sem ég er mjög glaður með. Síðan verður formleg opnun með pompi og prakt seinna í júní.“

Eldfjallasýningin á Hvolsvelli er alveg einstök sýning. Þar er spilað á öll skynfærin, mikið með hljóði og ljósi og birtu og öllu sem tengist skynfærunum. Fólk labbar í gegnum misturstrók og finnst eins og það sé tínt í myrkri eða reyk og jarðskjálfta sem er búinn til líka. Hljóðið er stóri parturinn af þessu þar sem fólk upplifir raunverulega hið gríðarlega afl sem er í eldgosum og jarðskorpunni hér á landi. „Fólk mun fá heilmikið fyrir peninginn í því að upplifa náttúruna á gjörsamlega nýjan og gangvirkan hátt. Fólk er þátttakandi í sýningunni. Það verður að gera eitthvað til að fá fram upplýsingarnar, hreyfa sig, stíga á punkta og fá fræðslu og í raun að vera með. Ég hef sagt að það eina sem sýningin geri sé að vekja fólk til umhugsunar um náttúruna okkar, um mikilfengleik hennar og hversu vel við þurfum að passa upp á hana. Þessi sýning er ætluð til að hreyfa við fólki og fá það til að sjá hlutina í nýju samhengi,“ segir Ásbjörn.

Nýjar fréttir