-7.2 C
Selfoss
Home Fréttir Tveggja kvölda tónleikaveisla á Laugarvatni um miðjan júlí

Tveggja kvölda tónleikaveisla á Laugarvatni um miðjan júlí

0
Tveggja kvölda tónleikaveisla á Laugarvatni um miðjan júlí
Daði Freyr Pétursson Eurovision-þátttakandi verður á hátíðini á Laugarvatni.

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á undirbúning tónlistarhátíðarinnar „Laugarvatn Music Festivalð sem haldin verður á Laugarvatni 14. og 15 júlí nk. Hátíðin er tveggja kvölda tónlistarveisla. Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar, Helgi Björnsson ásamt hljómsveit, Júníus Mayvant, hljómsveitin Valdimar, Snorri Helgason, Ylja og Tilbury. Þá er ekki allt upp talið því söngkonan Hildur stígur einnig á svið, eins Daði Freyr Pétursson sem kom sá og næstum því sigraði Eurovision. Þá mun nýstirnið Karitas Harpa sem sigraði The Voice í vetur taka lagið. Enn eftir að bætast við listann á næstunni.

Fagna nýrri tónleikaveislu
„Við fögnum fjölbreytilegri menningu hérna í Bláskógabyggð,” segir Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar, á heimasíðu hátíðarinnar, spurður úti í tónleikaveisluna. „Við höfum reynslu af því að vinna með skipuleggjendum þessarar hátíðar á öðrum vettvangi og við vitum að þeir eru á heimavelli í tónlistinni þannig að við viljum vinna með þeim að því að á Laugarvatni verði til flott, metnaðarfullt tónleikafestival og þróað í sátt við íbúa til næstu ára. Við óskum þeim alls hins besta í undirbúningi og framkvæmd.“

Ekki útihátíð og aðeins 800 miðar í boði
Tónleikarnir fara fram innandyra bæði kvöldin í íþróttahúsinu á Laugarvatni en húsið fellur einkar vel að tónlistarflutningi þar sem stór hluti þess er viðarklæddur að innan.Tónleikahátíðin er því ekki útihátíð heldur tónleikaveisla og eingöngu er hægt að kaupa miða sem gildir fyrir bæði kvöldin. Aðeins verða 800 miðar í boði þannig að betra er að hafa hraðar hendur á hvað það varðar. Miðasala er á www.tix.is. Tónleikarnir eru haldnir á föstudags- og laugardagkvöldi og standa frá rúmlega 19:00 rétt fram yfir miðnætti bæði kvöldin.

Virðing fyrir náunga og nærumhverfi
„Ég veit að skipuleggjendur leggja mikla áherslu á það að vinna þetta í sátt við nærumhverfið og við höfum alveg fundið fyrir því,”segir Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu. „Þeir hafa verið að vinna að undirbúningi fyrir þetta í rúmlega tvö ár og hafa haft okkur með í ráðum og við fylgst með framgöngu mála allann þann tíma. Okkur sem vinnum að ferðamálum hérna í Uppsveitunum hefur fundist vanta svona viðburð með vandaðri popptónlist. Við státum af einni glæsilegustu tónlistarhátíð landsins þegar kemur að klassíkinni og með þessari hátíð má segja að við brúum bilið og bjóðum upp á allt það besta hérna í uppsveitunum,” bætir Ásborg við.

Fyrir tónlistarunnendur á öllum aldri
Hátíðin er hugsuð fyrst og fremst fyrir þá sem unna góðri dægurtónlist, hvort sem hún er hefðbundin eða undir þjóðlaga eða „indie” áhrifum. Skipuleggjendur gera ráð fyrir því að fólk muni sækja hana úr borginni en ekki síður íbúar í uppsveitum Árnessýslu, hvort heldur sem þeir eru heilsársíbúar eða ábúendur í þeim tæplega 2000 sumarhúsum sem þar eru, nú eða öðrum byggðum eins og af hjólahýsa- og tjaldborgabyggð sem rísa á Flúðum, Apavatni, Aratungu og í nágrenni Laugarvatns á hverju sumri. Það eru því allir velkomnir en þó undir þeim formerkjum að 20 ára aldurstakmark gildir nema ungmenni séu með foreldrum eða forráðamönnum.

Á laugardeginum og sunnudeginum verður einnig hægt að fara í skipulagðar skoðunarferðir um nágrenni Laugarvatns, göngu- og hjólaferðir um nágrennið og sérstaka Yoga tíma sem verða utan dyra. Allar upplýsingar um tjaldstæði, aðra gistingu og afþreyingu í uppsveitum Árnessýslu er hægt að finna á sveitir.is. Hægt er að fylgjast með framgangi tónleikaveislunnar á Facebook https://www.facebook.com/LaugarvatnMusicFestival/?fref=ts.