12.3 C
Selfoss

Hveragerði mun skarta sínu fegursta þessa Landsmótsdaga

Vinsælast

Undirbúningur fyrir Landsmót UMFÍ 50+ sem fram fer í Hveragerði 23.–25. júní næstkomandi er í fullum gangi og gengur vel. Opnað verður fyrir skráningar 1. júní. Landsmótsnefnd hefur hist reglulega og farið yfir skipulag mótsins. Með nefndinni starfa Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi hjá Hveragerðisbæ og Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, auk Ómars Braga Stefánssonar sem er framkvæmdastjóri mótsins.

„Fyrir nokkrum vikum var búið að ráða sérgreinastjóra í allar greinar og eru þeir byrjaðir að skipuleggja það sem að þeirra greinum snýr. Það er alltaf vel þegið að fá sjálfboðaliða til starfa því það þarf góðan hóp af fólki til að framkvæma svona mót,“ segir Jóhanna í stuttu spjalli við Dagskrána.

Ýmislegt skemmtilegt verður í boði í bænum samhliða mótinu eins og t.d. sýningar í Listasafni Árnesinga og á bókasafninu í Sunnumörk. Eins verða opnir og til sýnis fallegir garðar í bænum. „Við ætlum að reyna að vera með eitthvað í boði svipað og hefur verið þessa helgi þegar Blóm í bæ var haldið. Sú hátíð verður ekki í þeirri mynd sem hún hefur verið. Bærinn mun þó skarta sínu fegursta þessa Landsmótsdaga. Gróðurstöðvarnar verða opnar þessa helgi og örugglega einhver tilboð í gangi. Sama er að segja um veitinga- og ferðaþjónustuaðila hér í bænum. Það verða allir með opið og ýmislegt í boði,“ segir Jóhanna.

„Við vonumst til að það myndist góð stemning í bænum í kringum mótið. Við erum byrjuð að reyna að breiða út boðskapinn. Það eru kannski ekki margir sem hafa tekið þátt í Landsmótum UMFÍ 50+ en við erum t.d. með mjög sterkan blakhóp þar sem eru eldri iðkendur. Þau þekkja það þegar fullorðið kemur saman, spilar blak og skemmtir sér. Við vonumst til að strandblakið verði öflugt hér. Ég veit að það verður líka önnur keppni í strandblaki samhliða keppninni á 50+.“

Á Landsmóti UMFÍ 50+ verða margar spennandi greinar. Jóhanna vonast til að enn fleiri í yngri kantinum þ.e. nær 50 ára aldrinum taki þátt. „Hingað til hafa verið fleiri í eldri hópunum sem hafa tekið þátt í þessu móti. Ég held að nú sé tilvalið að kalla fram gamla íþróttamanninn og fara af stað.“

Keppnissvæðin verða á golfvellinum, í Hamarshöllinni og á íþróttavelli undir Hamrinum en þar verða frjálsar íþróttir. Þar er núna verið að búa til aðstöðu fyrir langstökk, spjótkast og kúluvarp. Einnig verða settar hlaupabrautir á grasið. Síðan verðu sundmót í sundlauginni, keppt í ringó í íþróttahúsinu og skák og bridds í grunnskólanum.

Á laugardagskvöldinu verður grillveisla, svipað og var á Ísafirði, og skemmtidagskrá í Örkinni þar sem keppendur og gestir geta átt ánægjulega stund saman.

Nýjar fréttir