0 C
Selfoss

Fjölskyldan frítt í útilegu á Úlfljótsvatni

Vinsælast

Um komandi helgi þ.e. dagana 26.–28. maí stendur tjaldsvæðið á Úlfljótsvatni fyrir Útileguhelgi fjölskyldunnar. Þá daga geta fjölskyldur gist á tjaldsvæðinu án þess að greiða gistigjald. „Þetta er okkar leið til að starta útilegusumrinu,“ segir Guðmundur Finnbogason, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns. „Tjaldsvæðið okkar hefur verið opið almenningi frá síðustu aldamótum og hefur alltaf lagt áherslu á að þjónusta fjölskyldur. Okkur finnst það eðlilegt framhald af því æskulýðsstarfi sem við rekum, til dæmis í skólabúðunum og sumarbúðunum.“

Þetta er annað árið í röð sem Úlfljótsvatn stendur fyrir Útileguhelgi fjölskyldunnar. „Hún var mjög vel sótt í fyrra og tókst í alla staði vel,“ segir Guðmundur. „Við höfum líka orðið vör við mikinn áhuga núna og ég held að margir muni nýta þetta sem fyrstu ferðahelgi sumarsins.“

Auk varðelds á laugardagskvöldið verður boðið upp á spennandi dagskrárliði eins og bogfimi, klifur og kajak- og kanósiglingar. „Við keyrum dagskrá fyrir tjaldgesti allar helgar yfir sumarið. Okkar sérstaða liggur kannski ekki síst í því að við erum með vel þjálfað starfsfólk sem er vant því að stýra ævintýra- og útivistardagskrá fyrir börn og ungmenni.“

Á laugardaginn er einnig hátíðin Borg í sveit þar sem að fyrirtæki og einstaklingar í Grímsnes og grafningshrepp bjóða gestum í heimsókn. Það er því tilvalið að tvinna þetta saman, gista á Úlfljótsvatni og njóta dagskánnar þar og fara svo í bíltúr um sveitina líka.

Eins og fyrr segir er frítt að gista á tjaldsvæðinu þessa helgi en greitt er fyrir dagskrá og rafmagn. Nánari upplýsingar eru á Facebook-síðu Útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni.

Nýjar fréttir