7.8 C
Selfoss

Stuðmenn koma fram á Kótelettunni

Vinsælast

Hljómsveitin Stuðmenn mun koma fram á Kótelettunni BBQ Festival á Selfossi, en hátíð­in verður haldin í áttunda skiptið dagana 9.–11. júní nk. Þessi sjaldséði viðburður verður í tilefni þess að nú eru 35 ár síðan þeir tróðu upp á eftirminnilegum dansleik í Sel­fossbíói, en umrædd­ur dansleikur varð svo hluti af ákveðnu atriði í kvikmyndinni Með allt á hreinu.
Fjöldi skemmtikrafta og atriða verða á Kótelettunni eins og verið hefur undanfarin ár.  Páll Óskar, Stuðlabandið, DJ Siggi Hlö, Áttan og fleiri koma fram á hátíðarsvæðinu á kvölddagskrá hátíðarinnar. Þá verður dagskrá í Sigtúns­garð­in­um enn veglegri en áður með föstum liðum sem hafa slegið í gegn undanfarin ár.

Endurvekja stemninguna úr Selfossbíói forðum
Eins og undanfarin ár verður vegleg dagskrá bæði á hátíðarsvæðinu við Hvíta húsið og í Sigtúnsgarðinum þar sem verður boðið upp á mikla hátíðardagskrá á laugardeginum.

Skipuleggjendur Kótelettunar hafa boðið upp á sérstök atriði á hverju ári með tónlistarmönnum sem eiga sérstakan stað í íslenskri tónlistarsögu. Undanfarin ár hafa tónlistarmenn og hljómsveitir eins og Mánar, Mannakorn, Björgvin Halldórsson og fleiri, troðið upp á hátíðinni. Þetta árið mun hljómsveitin Stuðmenn koma saman þetta eina kvöld í tilefni þess að nú eru 35 ár síðan dansað var uppi á borðum eins og forðum í Selfossbíói og Egill Ólafsson hékk í kaðli fyrir ofan sviðið um það leyti sem rafmagninu var slegið út af húsinu. Einhverjir Sunnlendingar muna eftir þessu atriði því þeir voru á staðnum, aðrir hafa séð þetta í kvikmynd Stuðmanna, Með allt á hreinu.

„Þetta voru alltaf sérlega góðir dansleikir sem við spiluðum á Selfossi og þessi dansleikur í Selfossbíói árið 1982 er einkar eftirminnilegur,” segir Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður. „Við tókum því fagnandi í þá hugmynd þeirra Kótelettumanna um að koma aftur þessum 35 árum síðar til að endurvekja þessa stemningu og kynna hana um leið fyrir yngri kynslóðum. Og hver veit? Kannski hangir Egill aftur í kaðlinum góða.”

Dansleikur fyrir alla fjölskylduna
Boðið verður upp á þá nýjung þetta árið að hafa hluta að þeim listamönnum sem koma frá á dansleik laugardagskvöldsins á fjölskyldudansleik í Miðbæjargarðinum á laugardeginum. Þar koma fram Páll Óskar, Áttan og fleiri.

„Þetta er eitthvað sem okkur hefur lengi langað að gera fyrir gesti okkar. Við skiljum vel að yngri kynslóðina langi að upplifa þá stemningu sem myndast á kvölddansleikjunum og þess vegna er mikið gleðiefni að geta boðið upp á þennan fjölskyldudansleik á laugardeginum,” segir Einar Björnsson, einn skipuleggjenda Kótelettunar.

Fastir liðir sem hafa sett svip sinn á hátíðina undanfarin ár verða einnig í boði svo sem Götugrillmeistarinn þar sem grillmeistarar hvaðan að keppa um hver er bestur með töngina. Flottasta grillveislan verður einnig á sínum stað þar sem valin verður besta grillveisla svæðisins og veitt verðlaun fyrir hana. Þá verður að sjálfsögðu einnig glæsilegt dagskrá á laugardeginum áður en fjölskyldudansleikurinn hefst þar sem fjöldi skemmtikrafta kemur fram. Auk þess sem styrktarsalan fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna verður á sínum stað.

Fjöldi tónlistamanna á hátíðarsvæðinu
Það verða ekki einungis Stuðmenn sem sjá um gleðina á hátíðarsvæðinu við Hvíta húsið þessa helgi. Þar koma fram Emmsjé Gauti, Páll Óskar, Love Guru, DJ Siggi Hlö, Úlfur Úlfur, Sverrir Bergmann & Albatross, Áttan og hið rómða Stuðlaband frá Selfossi, svo eitthvað sé nefnt. Sem fyrr verður leikið á tveimur sviðum, einu inni í Hvíta húsi og svo á risasviði fyrir á planinu fyrir utan húsið.

„Við höfum alltaf reynt að setja upp fjölbreytta dagskrá sem höfðar til sem flestra og reyna þannig að stuðla að því að mismunandi kynslóðir geti skemmt sér saman,” segir Einar Björnsson.

Miðasala á hátíðina er hafin og fer fram á tix.is og í Gellerý Ozone á Selfossi. Sérstakt verð er fyrir þá sem tryggja sér miða í forsölu fyrir fimmtudaginn 1. júní eða 6.900 kr. Nánari upplýsingar um dagskrá o.fl. má finna á www.kotelettan.is og á Facebook síðu hátíðarinnar.

Nýjar fréttir