-3.5 C
Selfoss

Gæsahúð í maí

Vinsælast

Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur á undanförnum árum getið sér gott orð fyrir spilamennsku sína sem og spennandi og djarft verkefnaval. Lúðrasveitin, sem er skipuð um 35 spilurum á öllum aldri, æfir að öllu jöfnu einu sinni í viku en oftar þegar mikið liggur við, sem gerist nokkuð reglulega! Samstarf lúðrasveitarinnar við Jónas Sigurðsson tónlistarmann er löngu orðið landsþekkt og má segja að nokkur laganna sem urðu til í tengslum við það samstarf séu orðin klassísk, t.d. Hafið er svart og Þyrnigerðið. Fjölmörg önnur metnaðarfull en misstór verkefni hafa verið unnin í kjölfarið og nú er eitt ristastórt framundan.

Lúðrasveitin hefur látið útsetja sérstaklega fyrir sig valin lög úr smiðju Magnúsar Þórs Sigmundssonar og það vita þeir sem til þekkja að úr nógu er að velja enda Magnús Þór einn af ástsælustu og afkastamestu lagahöfundum sem Íslendingar eiga. Sveitin fékk nokkra útsetjara til verksins sem hver um sig ljær verkum Magnúsar sérstakan blæ, allt frá svimandi rómantík yfir í kúbverskan rythma.

Um er að ræða tólf dásamlegar og vel þekktar dægurlagaperlur s.s. Álfar, Jörðin sem ég ann, Ísland er land þitt, Þú átt mig ein, Ást, Ef ég gæti hugsana minn, Dag sem dimma nátt, Blue Jean Queen o.s.frv.

Með lúðrasveitinni koma fram góðir gestir. Fyrst ber að nefna söngvarann Stefán Jakobsson, sem er hvað þekktastur fyrir að syngja með hljómsveit sinni Dimmu. Hann mun syngja nokkur laganna með lúðrasveitinni og það má lofa því að eimitt þá munu gæsahúðaraugnablikin koma í kippum! Einnig mun Magnús Þór sjálfur vera í hlutverki kynnis og segja áheyrendum sögur af lögunum og ferli sínum. Um þrenna tónleika er að ræða; eina í Þorlákshöfn, eina í Hveragerði og eina í Reykjavík og er miðasala á midi.is.

Lúðrasveitarmeðlimir vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta og njóta þessa dásamlega sunnlenska viðburðar hvort sem það er í heimabyggð eða nágrannabæjum, en mikil vinna og metnaður liggur þarna á bak við til þess að gera þetta sem best úr garði. Stjórnandi lúðrasveitarinnar í þessu verkefni er Ása Berglind Hjálmarsdóttir.

Ágústa Ragnarsdóttir, formaður LÞ.

Random Image

Nýjar fréttir