-7 C
Selfoss
Home Fréttir Sá vægir sem vitið hefur meira

Sá vægir sem vitið hefur meira

0
Sá vægir sem vitið hefur meira
Agla Þyrí Kristjánsdóttir.

„Sá vægir sem vitið hefur meira“

Pistill þessi hefst á tilvitnun í þennan íslenska málshátt.

Tilvitnun þessa notaði fráfarandi skólastjóri Bláskógaskóla á foreldrafundi sem haldinn var nýverið í Aratungu, Reykholti. Þar nýtti hann einnig tækifærið til að útskýra uppsögn sína. Kvað hann sér ekki vært í skólanum, mikið hatur beindist að honum, rógburður og umræður við eldhúsborð sumra sveitunga, í blöðum og á facebook. Skólastjóri sagði einnig frá því á fundinum að hann hafi verið kærður til allra stjórnsýslustiga en staðið það allt af sér. Ekki vildi hann fyrir nokkurn mun draga þennan góða skóla niður í svaðið og sagði því þessi fleygu orð. „Sá vægir sem vitið hefur meira og því hef ég ákveðið að stíga til hliðar“.

Haustið 2015 þegar viðkomandi skólastjóri hóf störf við grunnskólann í Reykholti störfuðu þar 21 starfsmaður. Við skólaslit vorið 2016 höfðu 9 starfsmenn tilkynnt uppsögn sína, veikindi eða verið sagt upp störfum og um jólin 2016 fór enn annar starfsmaður i veikindaleyfi. Ástæður þess hve margir hurfu frá störfum voru eflaust margar en full ástæða er til að ætla að einhver brotalöm sé til staðar þegar starfsmenn sem starfað hafa við sama skólann í langan tíma hætta allir á einu bretti.

Á fyrrnefndum foreldrafundi fór umræddur skólastjóri mikinn í lofsöng um eigin verk og hversu vel hefði tekist til í skólastarfinu í heild sinni. Hann gat þó ekki svarað því af hvaða ástæðu þrír kennarar með rúmlega 30 ára farsæla kennslureynslu við skólann væru í veikindaleyfi. Þegar mótmæli við svörum hennar bárust úr sal var viðkomandi spyrjandi stöðvaður með þeim orðum að athugasemdir hans væru allt of persónulegar og ættu ekkert erindi á þessum fundi. Það skýtur svolítið skökku við því fyrr í „monologiskri“ 140 mínútna lofræðu um sjálfan sig hafði skólastjórinn gert lítið úr umræddum kennurum, og sagði m.a. að sumt fólk hafi einfaldlega ekki þolað breytingar. Veikindi kennara gerðu það að verkum að ekki var hægt að ráða í stöður þeirra þar sem veikindavottorð þeirra væru bara til eins eða tveggja mánaða í senn. Einnig beindi skólastjóri því til fundarmanna hve dýrt þetta væri fyrir sveitarfélagið að greiða þessu veika fólki fyrir það að vera heima hjá sér. Það væru skattpeningar íbúa sem færu í þetta. Aldrei kom neitt fram í máli hans að viðkomandi kennarar væru raunverulega veikir og treystu sér ekki til þess að starfa við skólann, hvað þá var sýnd samúð með veikindum þeirra.

Ég lít svo á að ég hafi „vægt“ vegna meira vits fyrir um ári síðan þegar ég fór buguð til heimilislæknis míns eftir gríðarlega erfiðan vetur í skólanum. Læknirinn minn skrifaði upp á ótímabundið veikindavottorð og var mælt með dvöl á Heilsustofnunni í Hveragerði. Það var ljóst að ég var ekki heil enda var ég niðurbrotin, sat grátandi frammi á biðstofu heilsugæslunnar, búin á sál og líkama. Aukakílóin höfðu safnast utan á mig, sálin var beygluð, líkaminn boginn, sjálfsmatið í lágmarki og sjáfsvirðingin engin.

Það var mikill léttir að komast í veikindaleyfi um haustið en um leið afar íþyngjandi því vissulega leið mér eins og ég væri byrði á samfélaginu. Enda ekki skrýtið þegar yfirmaður minn heldur því líka svo statt og stöðugt fram á opnum fundum eða hvar sem er.

Sama má segja um fráfarandi aðstoðarskólastjóra sem lýsti skoðun sinni á veikindarétti vinnandi fólks á facebook síðu sinni um liðna helgi. Þar útskýrði hún að sum veikindi væru „skiljanleg“ (og önnur þá væntanlega ekki), og „sveiaði“ þeim sem tóku eigin heilsu fram yfir þarfir nemenda. Ég hélt það væri lækna að meta veikindi fólks, ekki skólastjórnenda.

Sveitungar, sem hafa talað saman við eldhúsborðin sín, hafa ekki spurt mig um mitt heislufar eða hvað væri í gangi í skólanum. Ekki hafði vinnustaðasálfræðingur, sem kallaður var til vegna ástandsins í skólanum samband við mig eða hina átta sem einnig hættu um vorið. En sveitarstjórn virðist tilbúin að trúa öllu því sem frá fráfarandi skólastjórnendum hefur komið. Í það minnsta hefur enginn fulltrúi sveitarstjórnar komið að máli við mig. Er það eðlilegt að taka afstöðu til mála með því að hlusta einvörðungu á hlið annars aðilans?

Mánudagskvöldið 8. maí var svo haldinn íbúafundur í Aratungu. Þar kom Sigríður Jónsdóttir kennari fram og tjáði fundargestum m.a. að skólastjóri Bláskógaskóla hygðist reka hana fyrir brot utan starfs. Spurði Sigríður sveitarstjórn hversu miklum fjármunum sveitarstjórn hygðist eyða í þau málaferli. Fátt var um svör og þykir mér ljóst eftir fund þennan að sveitarstjórn með skólastjóra í broddi fylkingar er vísvitandi að brjóta rétt launafólks.

Ég segi því eins og fyrrum samkennari minn sagði í blaðaskrifum sínum i Dagskránni fyrr í vetur um samskipti sín við skólastjóra Bláskógaskóla.

„Ég gat ekki unnið fyrir skólastjóra Bláskógaskóla“. Mín upplifun var og er að skólastjóri hafi sífellt gert lítið úr fagmennsku minni sem og samstarfsfólks míns. Ég kom oftar en ekki heim og leið eins og úrhraki, grét og átti erfiðara með svefn eftir því sem á veturinn leið. Ef það eru ekki andleg veikindi þá veit ég ekki hvað veikindi eru.

Mig langar að biðja fólk um að kynna sér allar hliðar þeirra mála sem það annars vill hafa skoðanir á. Virðing og mannleg samskipti eru flóknari en svo að hægt sé að gera þeim skil með svo einföldum hætti sem skólastjóri Bláskógabyggðar og sveitarstjórn vill vera láta.

Reykholti, 8. maí 2017
Agla Þyrí Kristjánsdóttir kennari.