6.1 C
Selfoss

Vonumst eftir að geta mætt þörfum sem flestra sjúklinga og aðstandenda þeirra

Vinsælast

Aðalfundur Krabbameinsfélag Árnessýslu var haldinn miðvikudaginn 19. apríl sl. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var ný stjórn félagsins kosin. Svanhildur Ólafsdóttir tók við formannsembættinu af Ingunni Stefánsdóttur. Stjórnina skipa einnig; Eygló Aðalsteinsdóttir varaformaður, Ingibjörg Jóhannesdóttir gjaldkeri og Katrín Stefanía Klemensardóttir ritari. Aðrir kosnir nefndarmenn eru Halldóra Stórá, Rannveig Bjarnfinnsdóttir og Sighvatur Björgvinsson.

Ný stjórn mun leggja metnað sinn í að efla starf félagsins og auka bæði þjónustu og fræðslu til krabbameinsgreindra einstaklinga og fjölskyldna þeirra í Árnessýslu. „Við eigum marga hæfa og reynsluríka fagmenn sem veita þjónustu í Árnessýslu og það auðveldar aðgengi sjúklinga að þjónustunni að geta boðið uppá hana í heimabyggð. Það getur reynst bæði erfitt og kostnaðarsamt að sækja alla þjónustu á höfuðborgarsvæðið og þess vegna vonumst við eftir að geta mætt þörfum sem flestra sjúklinga og aðstandenda þeirra,“ segir Svanhildur og bætir við að þegar einstaklingur greinist með krabbamein þá hafi það áhrif á alla fjölskylduna.

Krabbameinsfélagið hefur haldið úti félagsskap sem kallast Brosið. Hist er hálfsmánaðarlega í húsakynnum Rauða Krossins í Árnessýslu en Krabbameinsfélagið deilir húsnæði með Rauða Krossinum.

Tilgangur félagsins er að hittast og spjalla, deila reynslu, fá stuðning og ráð hvert frá öðru. Í vetur hefur til dæmis verið boðið uppá fyrirlesturinn Mikill hlátur og smá grátur, eftir Arndísi Höllu Jóhannesdóttur, aðventurkransagerð, páskaþema og kennslu í stafgöngu, svo eitthvað sé nefnt. Finna má hópinn inni á facebook undir nafninu Brosið.

Í maí mun Krabbameinsfélagið bjóða uppá sogæðanuddnámskeið sem stendur öllum til boða. Námskeiðið verður félagsmönnum að kostnaðarlausu en mun kosta lítilræði fyrir aðra. Námskeiðið fer fram dagana 15. og 22. maí og verður haldið í húsnæði Rauða Krossins. Námskeiðið hentar öllum sem eiga við óþægindi eða verki að stríða sem tengjast sogæðakerfinu. Kenndar verða gagnlegar og árangursríkar aðferðir sem fólk getur síðan haldið áfram að stunda að námskeiði loknu.

Margir spennandi viðburðir verða síðan haldnir í haust og er fólk hvatt til að fylgjast með á facebooksíðu félagsins, Krabbameinsfélag Árnesinga. Hafi fólk áhuga á að gerast félagsmenn og styrkja starfið má senda skráningu til Erlu á netfangið arnessysla@krabb.is eða hafa samband í síma 788 0300. Félagsgjald er 2500 á ári. Allar frekari upplýsingar um þjónustu, ráðgjöf eða starf félagsins veitir Erla í síma 788 0300. Símatími er á fimmtudögum kl. 13–16. Einnig er hægt að panta tíma á arnessysla@krabb.is.

Nýjar fréttir