2.8 C
Selfoss

Rekstrarafkoma batnar og skuldir lækka

Vinsælast

Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2016 hefur verið lagður fram í bæjarstjórn.

Rekstrarafkoma sveitarfélagsins er mun betri árið 2016 en var árið 2015. Samstæða sveitarfélagsins, A- og B-hluti, skilar afgangi frá rekstri upp á tæplega 108 milljónir kr., samanborið við 21 milljón kr. halla árið 2015. Útsvarstekjur voru 177 milljónir kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir og voru heildartekjur sveitarfélagsins um 300 milljónir kr. yfir áætlun. Veltufé frá rekstri var 1.048 milljónir kr. eða 13,7% af heildartekjum.

Skuldahlutfall samstæðunnar lækkar meira en áætlun gerði ráð fyrir og fer skuldaviðmið samstæðu í 133,7%, en var 148,4% í árslok 2015. Vaxtaberandi skuldir (skuldir við lánastofnanir og skammtímaskuldir) lækkuðu um ríflega 250 milljónir kr. á milli ára. Lífeyrisskuldbindingar hækka aftur á móti um 229,4 milljónir kr. milli ára. Atriði sem hafa áhrif á fjárhæð lífeyrisskuldbindinga eru m.a. kjarasamningshækkanir í lok ársins 2015, auk þess sem nú er horft til lengri lífaldurs fólks almennt við útreikninga á áætlaðri skuldbindingu sveitarfélaga. Til nánari skýringar þá kemur lífeyrisskuldbindingin til vegna starfsmanna sem voru aðilar að B-deildum lífeyrissjóðanna fyrir breytingar á lífeyriskerfinu.

Ánægjulegt er að skuldir við lánastofnanir og skammtímaskuldir skuli lækka, þær eru sá hluti skuldbindinga sveitarfélagsins sem bæjaryfirvöld á hverjum tíma geta haft bein áhrif á.

Á heildina litið er niðurstaða ársreiknings fyrir árið 2016 afar jákvæð. Afgangur er af rekstri samstæðu, tekjur aukast og sjóðstreymi lagast. Skammtíma- og langtímaskuldir lækka og skuldahlutfall lækkar umtalsvert. Þrátt fyrir þetta er enn halli á rekstri aðalsjóðs og A-hluta, þó tekist hafi að minnka þann halla talsvert á milli ára. Þann halla má að miklu leyti skýra með lágu meðalútsvari í sveitarfélaginu, en það er talsvert undir landsmeðaltali, og tiltölulega háu þjónustustigi á mörgum sviðum. Mikilvægt er að ná jafnvægi milli tekna og útgjalda A-hluta og verður áfram leitast við að ná hagræðingu í rekstri.

Nánar má lesa um einstaka liði ársreiknings í greinargerð sem birt er með fundargerð síðasta bæjarstjórnarfundar sem birt er á vef sveitarfélagsins www.arborg.is.

Nýjar fréttir