9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Sjúkraliðanám er spennandi kostur

Sjúkraliðanám er spennandi kostur

0
Sjúkraliðanám er spennandi kostur
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Selfossi. Ljósmynd: ÖG.

Það er aldrei of oft sagt hversu Sunnlendingar eru heppnir með Fjölbrautarskólann sinn. Sem hjúkrunarstjórnandi á heilsugæslunni á Selfossi hefur það verið okkur dýrmætt að boðið sé upp á sjúkraliðanám á svæðinu. Sjúkraliðanám hefur verið kennt til fjölda ára við FSu og höfum við því verið svo lánsöm hér á heilsugæslunni á Selfossi að geta mannað með vel menntuðum sjúkraliðum í heimahjúkrun. Með slíkum mannauði getum við tryggt gæðaþjónustu til okkar skjólstæðinga sem þiggja heimahjúkrun.

Á heilbrigðisstofnunum eru margir fagaðilar sem koma að þjónustu við skjólstæðinga sem þangað leita. Mikilvægt er að keðja þeirra sem að slíkri þjónustu koma slitni ekki og eru allir hlekkirnir jafn mikilvægir. Sjúkraliðar eru sú stétt sem vinnur náið með hjúkrunarfræðingum og gætu þessar stéttir illa án hvor annarrar verið. Því er mikilvægt að traust, virðing og samvinna sé höfð að leiðarljósi í þeirra samstarfi

Við hér á heilsugæslunni höfum verið lánsöm með okkar fagfólk sem leitast við að vinna sem ein heild til að veita íbúum sem besta þjónustu.

Sjúkraliðanámið er spennandi nám fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegum samskiptum, heilbrigði, forvörnum og hjúkrun. Sjúkraliðar í heimahjúkrun fá að vinna sjálfstætt en í mikilli samvinnu við hjúkrunarfræðinga og lækna. Hjá okkur sjá sjúkraliðar um ýmsar rannsóknir, aðstoða í móttöku hjúkrunarfræðinga, sinna heimahjúkrun og öðru því sem til fellur á stöðinni.

Ef þú ert óákveðinn um hvað þig langar að gera í framtíðinni viljum við benda á að sjúkraliðanám er spennandi kostur sem einnig er góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum.

F.h. Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi
Agnes Linda Þorgeirsdóttir, sjúkraliði í heimahjúkrun á heilsugæslustöð Selfoss