9.5 C
Selfoss

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Vinsælast

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir skólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, auk Vestmannaeyja fór fram þann 30. mars sl. Um er að ræða sex skóla, Grunnskólann á Hellu, Hvolsskóla, Kirkjubæjarskóla, Laugalandsskóla, Víkurskóla og Grunnskóla Vestmannaeyja. Keppendur voru 13 talsins, en að auki var fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.

Umgjörðin var ekki af verri endanum, en hátíðin fór að þessu sinni fram í Eldheimum í Vestmannaeyjum og höfðu þeir Eyjamenn veg og vanda af allri framkvæmd sem var til mikillar fyrirmyndar. Nemendur Tónlistarskóla Vestmannaeyja sáu um tónlistaratriði og boðið var upp á ljúffengar veitingar í hléi.

Veðrið var upp á sitt besta þennan dag og gátu keppendur og fylgdarlið þeirra ofan af landi farið fljúgandi frá Bakkavelli í Landeyjum.

Allir krakkarnir stóðu sig mjög vel og bar frammistaða þeirra sannarlega vitni góðri vinnu og þjálfun í skólunum í vetur.

Eins og oft áður var dómnefndinni vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara, en á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur: 1. sæti Eva María Þrastardóttir, Hvolsskóla, 2. Sæti Christian Dagur Kristinsson, Laugalandsskóla og 3. sæti Bertha Þorsteindóttir Grunnskóla Vestmannaeyja.

Nýjar fréttir