7.8 C
Selfoss

Fjallað um réttindi fatlaðs fólks

Vinsælast

Í tilefni þess að Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi heldur nú námskeið fyrir fatlað fólk, sem hyggst starfa í notendaráði, var opinn fundur í Fjölheimum laugardaginn 25. mars sl. þar sem rætt var um réttindamál. Sérstakir sendiherrar samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þeir Gísli Björnsson og Skúli Steinar Pétursson sögðu frá starfi sínu og ræddu mikilvægar greinar samningsins. Lögðu þeir áherslu á sjálfstæði fatlaðs fólks og rétt þeirra til að búa með þeim sem það velur sjálft. Ræddu þeir um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem sumir njóta en það verkefni er tilraunaverkefni sveitarfélaganna til breyttrar þjónustu við fatlað fólk. Gísli notar NPA þjónustu og segist þess vegna getað gert það sem hann vill, ferðast eins og hann vill, starfað við það sem hann vill og átt heimili eins og hann vill.

Eftir hádegið komu fulltrúar Átaks, félags fólks með þroskahömlun, þau Aileen Soffía Svensdóttir, formaður, og Snæbjörn Áki Friðriksson, varaformaður. Þau ræddu um störf og markmið Átaks þar sem skýrt kom fram að réttindabarátta er eitt af helstu verkefnum félagsins. „Ekkert um okkur án okkar“ eru þeirra kjörorð og þykir þeim mikilvægt að fólk með þroskahömlun berjist sjálft fyrir sínum réttindum og taki þátt í umræðu samfélagsins. Þau sögðu frá Stoltgöngunni, „Við göngum á ólíkan hátt – en öll í sömu átt“ sem farin var 3. september 2016. Í gönguna mættu sautján hundruð manns og gekk forseti Íslands í fararbroddi. Félagið hélt framboðsfund bæði fyrir forseta- og alþingiskostningarnar og hafa þau sett myndbönd af viðburðum sínum á YouTube. Nánari upplýsingar um starf félagsins er að finna á heimasíðu þess www.lesa.is en þar er til dæmis hægt að nálgast greinar um ólík málefni, upplýsingar um hvað er á döfinni og þar er einnig hægt að skrá sig í félagið.

Nýjar fréttir