8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Málefni aldraðra á Suðurlandi

Málefni aldraðra á Suðurlandi

0
Málefni aldraðra á Suðurlandi
Sandra Dís Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Árborg.
Sandra Dís Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Árborg.

Undanfarið hefur mikið verið fjallað um málefni aldraðra á Suðurlandi og það er alveg ljóst að staðan er alls ekki góð. Tveimur heimilum fyrir aldraða hefur verið lokað, fólk hefur þurft að yfirgefa heimili sín og flytjast annað og biðlistar hafa lengst. Kannski má segja að það hafi verið fyrirséð að Kumbaravogi yrði lokað en okkur óraði ekki fyrir að það yrði staðið að lokuninni með þeim hætti sem raunin varð.

Ég er mikil áhugamanneskja um málefni aldraðra. Ég sat í 8 ár í stjórn Dvalarheimilisins Sólvalla á Eyrarbakka og lagði mig þar alla fram við að berjast fyrir bættum aðbúnaði heimilisfólks og starfsfólks, frekari fjármunum frá ríkinu og öðru sem mögulega hefði getað gert heimilisfólkinu þar lífið léttara. Það er kannski vert að geta þess að seta í stjórn Sólvalla er ólaunað starf og hefur alla tíð verið þannig að það fólk sem sinnir þeim störfum gerir það af einskærum áhuga. Rekstur dvalar -og hjúkrunarheimila er erfiður og róðurinn þyngist með ári hverju. Kröfurnar sem gerðar eru til rekstrar slíkra heimila aukast jafnt og þétt en fjármunir frá ríkinu fylgja því miður ekki.

Umræðan undanfarið hefur mikið til snúist um það að níða sveitarstjórnarfólk fyrir sinnuleysi í þessum málaflokki. Ég get auðvitað ekki svarað fyrir það hvernig hlutirnir voru gerðir á árum áður en ég hef setið í bæjarstjórn Árborgar síðastliðin 7 ár og veit því vel hvernig unnið hefur verið að málefnum aldraðra þann tíma. Sveitarstjórnarfólk í Árborg og raunar á öllu Suðurlandi, hefur lagt gríðarlega vinnu í það að reyna að fá fleiri hjúkrunarrými á svæðið. Þessi vinna hefur verið í alls kyns formi, úttektir, skýrslugerð, samtöl maður á mann, símtöl, fundir. Alveg sama hvar í flokki við stöndum, við höfum öll reynt eftir fremsta megni að sannfæra ráðamenn þjóðarinnar og ekki síst þingmenn okkar kjördæmis um mikilvægi þess að búa betur að eldri borgurum hér á svæðinu.

Það er mikilvægt að það komi skýrt fram að málefni aldraðra heyra undir ríkið og það er á hendi ríkisins að sjá til þess að hér séu dvalar -og hjúkrunarheimili fyrir þá eldri borgara sem þess þurfa. Þessi málaflokkur er ekki á hendi sveitarfélaganna og þau eiga ekki að sjá um rekstur dvalar -og hjúkrunarheimila. Því miður hafa mörg sveitarfélög verið sett í þá stöðu að þurfa að sjá um reksturinn og ég þori að fullyrða að það er ekki óskastaða neins sveitarfélags því nær undantekningalaust eru slík heimili rekin með miklum halla.

Mig langar að setja dæmið upp í aðeins annað samhengi. Samgönguráðherra setti fram hugmynd ekki alls fyrir löngu um að setja á vegatolla við leiðir til höfuðborgarinnar. Mörgum brá við þessar hugmyndir og hávær mótmæli heyrðust víða. Rök þeirra sem mótmæltu voru þau að við skattborgarar þessa lands værum nú þegar búnir að greiða skatta og gjöld til ríkisins sem ættu að standa undir kostnaði við vegagerð í landinu og ekki vill fólk borga tvisvar fyrir sama hlutinn. Allt satt og rétt. En hvað með málefni aldraðra? Málefni aldraðra eru, eins og ég hef áður sagt, á hendi ríkisins og því erum við líka búin að greiða hluta af okkar sköttum til uppbyggingar á heimilum fyrir aldraða. Viljum við borga þann kostnað tvisvar? Nei ég held ekki en staðreyndin er sú að ef sveitarfélögin í landinu fara að taka af því fé sem íbúar þeirra greiða í formi útsvars til að byggja hjúkrunarheimili á svæðinu þá eru íbúar þeirra í raun að greiða tvisvar fyrir sama hlutinn.

Þrátt fyrir mikinn hægagang í kerfinu þá virðist sú barátta sem fram hefur farið undanfarin ár vera að skila sér að einhverju leyti og það er stutt í að farið verði í að teikna nýtt hjúkrunarheimili sem rísa á við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Samkvæmt fyrstu hugmyndum eru rýmin þó allt of fá að okkar mati en gert er ráð fyrir 50 rýmum í nýju byggingunni. Það er því áframhaldandi barátta í gangi því ákjósanlegast væri að gert væri ráð fyrir amk 60 rýmum og stækkunarmöguleika fyrir 20 rými þar til viðbótar. Ekki má heldur láta hjá líða að minnast á það að Sveitarfélagið Árborg er nú að byggja upp nýja aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara í sveitarfélaginu og gert er ráð fyrir að sú aðstaða verði tekin í notkun áður en langt um líður. Sú bygging mun breyta mjög miklu og verður án efa mikil bylting fyrir allt félagsstarf eldri borgara í Árborg.

Málefni aldraðra eru mikilvægur málaflokkur og þessi grein er ekki hugsuð til þess að fría okkur sveitarstjórnarmenn neinni ábyrgð heldur miklu fremur til þess að upplýsa fólk um það hvernig rekstri á þessum málaflokki er háttað. Það er alveg ljóst að það þarf að gera betur og það á auðvitað við um sveitarstjórnarfólk og fjölmarga aðra en þó ekki síst ríkisvaldið. Það er ólíðandi að fólk skuli vera flutt mörg hundruð kílómetra í burtu frá ástvinum sínum. Það er ólíðandi að fólk bíði veikt svo mánuðum og jafnvel árum skiptir án þess að fá þá þjónustu sem það þarf. Það á fyrir okkur flestum að liggja að verða gömul, hvernig viljum við að hugsað verði um okkur?

Sandra Dís Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Árborg.