7.3 C
Selfoss

Siglingar Smyril Line Cargo hafnar milli Þorlákshafnar og Rotterdam

Vinsælast

Beinar siglingar færeyska skipafélagsins Smyril Line Carge milli Íslands og Evrópu eru hafnar en vöruflutningaferjan Mykines kom með fyrsta farminn frá Rotterdam til Þorlákshafnar síðastliðinn föstudag. Með siglingaleiðinni milli Rotterdam og Þorlákshafnar stóreykur Smyril Line Cargo þjónustu sína við íslenska markaðinn, ekki síst suðvesturhorn landsins, og hafa bókanir farið vel af stað.

„Viðbrögðin hafa verið framar okkar björtustu vonum. Það er strax mikil eftirspurn eftir flutningum á bílum og stórum tækjum og vinnuvélum til landsins, ásamt allskyns bygginga- og neytendavörum. Útflutningurinn fer líka mjög vel af stað en þar er farmurinn mestmegnis fiskur,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi.

Mykinesið lagði af stað frá Rotterdam á þriðjudag, með viðkomu í Færeyjum á miðvikudag áður en það kom til Þorlákshafnar sl. föstudag. Skipið sigldi síðan beint frá Þorlákshöfn til Rotterdam og kom þangað í dag mánudag.

Smyril Line Cargo er fyrsta skipafélagið sem hefur reglubundnar vikulegar millilandasiglingar til Þorlákshafnar og í tilefni tímamótanna var íbúum Sveitarfélagsins Ölfus, nærsveitarmönnum og öllum sem áhuga höfðu boðið að skoða ferjuna. Boðið var upp á léttar veitingar og tónlist og gátu allir sem vildu komið um borð og skoðað skipið.

Til að undirbúa komu ferjunnar hafa staðið yfir miklar hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn og er m.a. búið að fjarlægja Norðurvararbryggjuna og dýpka höfnina. Framkvæmdirnar hafa gengið mjög vel og segir Linda að það hafi verið mjög ánægjulegt að vinna með bæði bæjar- og hafnarstjórn Ölfuss. „Við hjá Smyril Line Cargo hlökkum til enn frekara samstarfs á komandi árum.“

Ferjan Mykines er 19 þúsund tonn, ríflega 138 metra löng og tæplega 23 metra breið og getur hún flutt 90 tengivagna og 500 bíla í hverri ferð. Hún var smíðuð árið 1996 í UMOE skipasmíðastöðinni í Noregi og var m.a. áður í siglingum á Eystrasaltinu. Ferjan er skráð í Færeyjum og eru 24 í áhöfn.

Nýjar fréttir