0.5 C
Selfoss

Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar í Sunnulækjarskóla

Vinsælast

Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar 2017 var haldin í Sunnulækjarskóla miðvikudaginn 29. mars sl. Lokahátíðin er samstarfsverkefni grunnskólanna, Radda, skólaþjónustu Árborgar og Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Á lokahátíðinni keppa þrír fulltrúar frá hverjum skóla sem hafa verið valdir í forkeppni í sínum skóla. Skólarnir sem áttu fulltrúa á hátíðinni voru Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, Grunnskólinn í Þorlákshöfn, Grunnskólinn í Hveragerði, Vallaskóli og Sunnulækjarskóli.

Í fyrstu umferð lásu keppendur úr Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason, næst voru lesin valin ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur og í þriðju umferð völdu keppendur sjálfir ljóð. Verðlaunahafar frá því í fyrra kynntu skáld keppninnar og Karítas Harpa Davíðsdóttir, söngkona, flutti ávarp þar sem meginstefið var að láta drauma sína rætast með vinnusemi. Milli upplestra voru tónlistaratriði í umsjón Tónlistarskóla Árnesinga sem gaf samkomunni hátíðlegan blæ. Dómnefndina skipuðu þau Edda Antonsdóttir, kennsluráðgjafi Skólaþjónustu Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýlsu, Ásmundur Sverrir Pálsson, íslenskukennari, og formaður dómnefndar var Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðisstaðaskóla og stjórnarmaður í Röddum.

Sigurvegari keppninnar í ár kom úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn og heitir Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir, í öðru sæti varð Birgitta Björt Rúnarsdóttir, einnig úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn, og í þriðja sæti varð Thelma Lind Sigurðardóttir úr Vallaskóla, Selfossi.

Random Image

Nýjar fréttir