9.5 C
Selfoss

Mikill áhugi á Landsmóti UMFÍ 50+ í Hveragerði

Vinsælast

Gísli Páll Pálsson formaður landsmótsnefndar og Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, stóðu fyrir kynningu á Landsmóti UMFÍ 50+ í húsnæði eldri borgara í Hveragerði á miðvikudaginn í liðinni viku. Fundurinn var vel sóttur og spurðu gestir fundarins fjölmargra spurninga um mótið, bæði hvaða greinar verði í boði og hvernig fyrirkomulagi mótahelgarinnar verði háttað.

„Eldri borgarar í Hveragerði hafa mikinn áhuga á mótinu í sumar og vilja taka þátt í því með ýmsum hætti,“ segir Gísli Páll. Mótið verður haldið um Jónsmessuhelgina 23.–25. júní í sumar í Hveragerði.

Gísli Páll segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart hversu ákafir eldri borgarar voru að taka þátt í mótinu. „Þau vilja sinna ýmsum störfum, hafa opið hús og bjóða mótsgestum upp á sýningu á munum og kaffi. Við ætlum að þiggja það,“ segir Gísli og undirstrikar að fundurinn hafi verið svo góður að þeir Engilbert ætli að gera víðreist um Suðurlandið og kynna landsmótið á Selfossi, í Þorlákshöfn og víðar.

Mót fyrir alla 50 ára á árinu
Landsmót UMFÍ 50+ hefur verið haldið ár hvert frá 2012 og er þetta í fyrsta sinn sem Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) er mótshaldari. Nálægðin við höfuðborgarsvæðið, Selfoss og aðra þéttbýlisstaði gerir það að verkum að búist er við meiri fjölda af öflugum þátttakendum 50 ára og eldri en áður hefur sést á mótunum til þessa.

Landsmót UMFÍ 50+ er fyrir alla sem fagna fimmtugsafmæli á árinu og þá sem eldri eru. Í boði eru keppnisgreinar á boð við utanvegahlaup, strandblak, crossfit og frjálsar, strandblak, þríþraut, sund, hjólreiðar, pútt, golf og boccía auk ringó.

Skráning á mótið hefst 1. júní næstkomandi og fer hún fram á heimasíðu Ungmennafélags Íslands (www.umfi.is). Á mótasíðu UMFÍ eru þegar komin drög að dagskrá. Þátttökugjaldið er 4.500 krónur og er fyrir eitt gjald hægt að skrá sig í eins margar greinar og viðkomandi vill taka þátt í.

Nýjar fréttir