7.9 C
Selfoss
Home Fréttir Bjóða flóttamönnum með í fjölbreytt félagstarf

Bjóða flóttamönnum með í fjölbreytt félagstarf

0
Bjóða flóttamönnum með í fjölbreytt félagstarf

Ungmennaráð Árborgar er skipað af þrettán ungmennum á aldrinum 14–20 ára, einn fulltrúi fyrir hvern grunnskóla sveitarfélagsins, tveir frá ungmennafélaginu, tveir frá öðrum æskulýðsfélögum, einn frá félagsmiðstöðinni Zelsíus, einn frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og fjórir kosnir inn af ungmennaþingi.

Ungmennaráðið sinnir ýmsum störfum innan sveitarfélagsins, sem dæmi hlutverk áheyrnarfulltrúa í félagsmálanefnd, framkvæmda- og veitustjórn, íþrótta- og menningarnefnd, skipulags-og byggingarnefnd og fræðslunefnd.

Ráðið fundar á tveggja vikna fresti þar sem tekin eru fyrir fjölbreytt málefni, til að mynda stöðu samgöngu-, mennta-, umhverfis- og heilbrigðismála ásamt því að skipuleggja viðburði reglulega og má þar nefna sem dæmi ungmennaþing sem haldin eru tvisvar á ári.

Ungmennaráðið fundar með bæjarstjórn Árborgar einu sinni á ári þar sem ráðið flytur tillögur sem er svo vísað í viðeigandi nefndir sem fá tillögurnar til vinnslu. Oft hafa tillögur ungmennaráðs verið settar í framkvæmd; dæmi sem má nefna er móttaka flóttamanna í Árborg, æskulýðssjóður, strætóskýli fyrir framan FSu, heilsustígur í Hellisskógi og opna tíma í íþróttahúsum fyrir almenning.

Verkefni ungmennaráðs hafa verið af ýmsum toga og hefur ráðið sótt ýmsar ráðstefnur á borð við „Ungt fólk og lýðræði“ sem er á vegum UMFÍ og tekið þátt í alþjóðlegu verkefni á vegum Erasmus+. Verkefnið bar yfirheitið „Healthier steps through Europe“ þar sem samstarfsaðilar voru hópar ungmenna frá Gautaborg í Svíþjóð og Kanaríeyjum. Umfangsmesta verkefni ungmennaráðs frá upphafi var þó sennilega „Ráðstefna ungmennaráða á Suðurlandi“ sem haldin var á Hvolsvelli í september 2016. Tilgangur ráðstefnunnar var að þrýsta á sveitarfélög á Suðurlandi til þess að virkja sín ungmennaráð eða stofna ungmennaráð hafi það ekki verið til staðar áður. Ráðstefnuna sóttu 136 manns frá hér um bil öllum sveitarfélögum Suðurlands. Afurð ráðstefnunnar verður heimildarmynd um ráðstefnuna, handbók fyrir ungmennaráð ásamt stuttum myndböndum.

Á döfinni hjá Ungmennaráði Árborgar er áhersla á að veita nýkomnu flóttafólki stuðning við að aðlagast okkar samfélagi, sem dæmi ætla ungmennaráðsmeðlimir að bjóða þeim með sér í fjölbreytt félagsstarf. Einnig stefnum við á að halda bíllausa viku, leggja áherslu á flokkun rusls, hugsanleg þátttaka í alþjóðlegu verkefni og tvö ungmennaþing. Fyrra ungmennaþingið er áætlað 27. apríl kl. 18:00 í Ráðhúsi Árborgar.

Í ráðinu sitja eftirfarandi einstaklingar:
Lovísa Þórey Björgvinsdóttir, fulltrúi Vallaskóla
Veigar Atli Magnússon, fulltrúi Sunnulækjarskóla
Tanja Rut Ragnarsdóttir, fulltrúi barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri
Ásdís Ágústdóttir, fulltrúi Ungmennafélagsins
Þórunn Ösp Jónasdóttir, varafulltrúi Ungmennafélagsins
Soffía Margrét Sölvadóttir, fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Zelsíus
Sigdís Erla Ragnarsdóttir, fulltrúi annara æskulýðsfélaga
Þorgerður Helgadóttir, varafulltrúi annara æskulýðsfélaga
Sveinn Ægir Birgisson, fulltrúi FSu af ungmennaþingi
Guðmunda Bergsdóttir, fulltrúi af ungmennaþingi
Pétur Már Sigurðsson, fulltrúi af ungmennaþingi
Agnes Halla Eggertsdóttir, varafulltrúi af ungmennaþingi
Jakob H. P. Burgel Ingvarsson, varafulltrúi af ungmennaþingi

F.h. Ungmennaráðs Árborgar
Sigdís Erla Ragnarsdóttir, Guðmunda Bergsdóttir, Tanja Rut Ragnarsdóttir og Sveinn Ægir Birgisson.