7.1 C
Selfoss

Þingmenn heimsóttu Heilbrigðisstofnun og Brunavarnir

Vinsælast

Níu þingmenn Suðurkjördæmis heimsóttu í síðustu viku m.a. Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og Björgunarmiðstöðina á Selfossi. Þau áttu síðan góðan fund með framkvæmdastjórn stofnunarinnar á Selfossi.

Í Björgunarmiðstöðinni var farið yfir fortíð, nútíð og framtíð utanspítalaþjónustu á Suðurlandi. Þingmönnum var gerð grein fyrir fjölgun útkalla í umdæminu, sem eru komin til vegna aukinna umsvifa og aukins fjölda ferðamanna. Um 10-15% aukning er í útköllum á milli ára og heildaraukningin frá árinu 2011 er 66%. Komið var inná að lögregla, slökkvilið og sjúkraflutningar í umdæminu hafa aukið samstarf og samþættingu gríðarlega, sem gerir þjónustuna straumlínulagaðri fyrir skjólstæðinga umdæmisins. Þá var og bent á mikilvægi vettvangshjálparliða eins og á Flúðum og í Öræfunum þar sem langt er í næsta sjúkrabíl. Þingmenn voru upplýstir um að eins konar aðgerðarstjórn hefur verið starfrækt frá vorinu 2016 þar sem allir viðbragðsaðilar koma saman á vettvangi, ef um slys er að ræða. Að lokum var farið yfir kosti þess að sjúkraþyrla yrði fengin til að þjónusta umdæmið og þá ekki síst Vestmannaeyjar sem þurfa svo sannarlega á sérhæfðri aðstoð án tafa, þegar alvarleg veikindi eða slys verða þar.

Þingmenn komu síðan á aðalskrifstofur HSU og áttu þar fund með framkvæmdastjórn.  Saman áttu þau gott og uppbyggilegt samtal um rekstrarstöðu HSU og verkefnin framundan. Forstjóri fór yfir framvindu í rekstri HSU síðustu 26 mánuði og þann ávinning sem náðst hefur í að snúa við rekstrarstöðu og efnahag stofnunarinnar frá sameiningu.  Gífurleg vinna hefur farið í að koma rekstrinum á réttan kjöl og hefur sá árangur m.a. náðst í samstarfi við velferðarráðuneyti og einnig þingmenn kjördæmisins. Á stórri stofnun þarf fé til endurnýjunar á tækjabúnaði en fjármögnun á úreltum tækjum og búnaði vantar enn sárlega til að HSU geti staðið undir hlutverki sínu. Nú er svo komið að 2/3 tækjakaupa hjá stofnuninni eru fjármögnuð fyrir gjafafé. Á fundinum var einnig farið yfir rekstur sjúkrahúsanna í umdæminu, verkefnin framundan, tækifærin í aukinni sérhæfðri þjónustu til íbúa. Lögð var áhersla á áframhaldandi uppbyggingu og hvernig má nýta enn betur mannafla og hæfni heilbrigðisfagfólks í umdæminu til hagsbóta fyrir íbúa alla og gesti á Suðurlandi. Líflegar og gagnlegar umræður sköpuðust á fundinum og verður málefnum fundarins fylgt eftir.

Nýjar fréttir