8.9 C
Selfoss

Mikið byggt í Árborg um þessar mundir

Vinsælast

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, er í viðtali í Dagskránni og var m.a spurð hvernig ástandið væri í sveitarfélaginu í dag hvað framkvæmdir og uppbyggingu varðar.

„Það er mjög mikið verið að byggja og við verðum vör við að það er stöðugt sótt um byggingaleyfi. Það er verið að byggja sérstaklega mikið á lóðum í þeim hverfum sem byggðust upp í einkaframkvæmd og var byrjað á hérna fyrir hrun, mikið í Hagalandinu, Gráhellunni og Austurbyggðinni sem er úr Dísastaðalandinu. Þar eru mjög margar íbúðir í vinnslu.
Svo fjölgar auðvitað íbúum þannig að það þarf að fjölga íbúðum líka. Gefin voru út byggingaleyfi á síðasta ári fyrir 140 íbúðum og í ár er búið að gefa út byggingarleyfi fyrir 15 íbúðum. Íbúum í sveitarfélaginu fjölgaði um 3,3% á síðasta ári og eru þeir orðnir rúmlega 8.500 núna. Þessi fjölgun er aðeins yfir meðallagi en við höfum verið með í kringum 2% fjölgun á ári undanfarin ár. Það munar um þessa fjölgun,“ segir Ásta.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar. Ljósmynd: ÖG.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar. Ljósmynd: ÖG.

Þörf á húsnæði fyrir eldri borgara
„Í kringum hrun hægðist verulega á öllu hér eins og annars staðar á landinu og var ekki mikið byggt. Þetta er allt annað núna. Það er mjög mikið byggt af íbúðarhúsnæði. Sveitarfélagið er líka í ýmsum framkvæmdum. Í þar síðustu viku var t.d. tekin skóflustunga að byggingu þar sem verður stækkun á félagsaðstöðu fyrir eldri borgara og nýtt rými fyrir dagdvöl fyrir aldraða sem hefur verið í Grænumörk og færist inn í þessa nýju byggingu. Þetta er eins konar tenging á milli Grænumerkur og nýrrar byggingar, fjölbýlishúss, fyrir 55 ára og eldri. Sú framkvæmd er á vegum einkaaðila. Það munar um að fá þennan íbúðafjölda inn á markaðinn því að það hefur verið veruleg þörf fyrir húsnæði fyrir eldri borgara. Það eru t.d. mjög margir á biðlista eftir að komast í þær leiguíbúðir sem sveitarfélagið á í Grænumörk.“

Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á fullt á næsta ári
„Af öðrum framkvæmdum sem eru í bígerð, ef maður horfir á þetta svæði austantil í bænum, þá er verið að undirbúa hönnunarsamkeppni um byggingu nýs hjúkrunarheimilis sem á að rísa á lóð HSU. Þar vinnur sveitarfélagið með ríkinu. Ríkið er sá aðili sem tekur allar ákvarðanir í þessu þ.e. hvort, hvar og hversu mörg rými verða byggð. Sveitarfélagið greiðir 16% af framkvæmdakostnaðinum þ.e. byggingakostnaði hússins og stofnbúnaði. Lögum samkvæmt er sveitarfélögum skylt að greiða ekki minna en 15% af þessum kostnaði og leggja til lóð. Niðurstaðan varð sú úr því að ríkið valdi að byggja þetta á sinni lóð en ekki lóðum sem sveitarfélagið gat boðið að þá myndi sveitarfélagið greiða 16% en ekki 15%. Ég tel að við höfum náð ágætis samningi þar. Það er verið að vinna þarfagreiningu og vonandi fer verkefnið í hönnunarsamkeppni núna í mars. Það verður ekki byrjað að grafa neitt eða framkvæma á þessu ári því þetta tekur allt sinn tíma, hönnunin og að teikna þetta og bjóða út. Síðan verður væntanlega farið í framkvæmdir á fullu á næsta ári.“

Nýjar fréttir