10 C
Selfoss

Ódýrara húsnæði en á höfuðborgarsvæðinu

Vinsælast

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar er í viðtali í Dagskránni sem kemur út á morgun. Hún var m.a. spurð um atvinnuástand almennt í sveitarfélaginu Árborg?

„Atvinnuástand samkvæmt atvinnuleysistölum frá Vinnumálstofnum er bara mjög gott. Það er lítið atvinnuleysi hér, hefur verið undir 2% síðustu mánuði og var 2,4% í janúar. Framboð af störfum hefur verið vaxandi, sérstaklega í þjónustugeiranum. Það eru talsverð umsvif í kringum ferðamenn og það sem þeim fylgir. Þannig að það er heilmikið framboð af störfum. Maður sér þó nokkuð af atvinnuauglýsingum í blöðunum hérna í hverri viku þar sem er verið að auglýsa eftir fólki. Það er líka hreyfing á fólki, það er aðeins að fara á milli starfa.“

Ásta segir að talsvert sé um það að fólk sé að flytja í Árborg og bara á síðasta ári hafi íbúum fjölgað um 3,3%, sem er meira en alla jafna hefur verið undanfarið. „Það er mikið um það að fólk sé að flytja af höfuðborgarsvæðinu. Það er ódýrara húsnæði hérna og kannski auðveldara að fá húsnæði þó svo að það sé þannig núna að nánast allt sem kemur á sölu seljist mjög fljótt. Það er mikið byggt og því fjölgar mikið hér og líka á Eyrarbakka og Stokkseyri. Það fjölgar alls staðar og það er verið að byggja í öllum byggðakjörnunum.“

Lokun Kumbaravogs áfall
„Það var auðvitað áfall fyrir atvinnulífið í sveitarfélaginu, ekki síst fyrir Stokkseyri, að Kumbaravogi var lokað. Ný störf koma ekki strax í staðinn fyrir þau störf sem þar voru.  Með nýja hjúkrunarheimilinu sem verður reist hérna á Selfossi með 50 hjúkrunarrýmum verða til ný störf í þeim geira ef svo má segja. Það er þó ekki komið að því þannig að það getur orðið eitthvert millibilsástand. Það er ekki mikið framboð starfa á Eyrarbakka og Stokkseyri og munar um hvert starf.“

Nýjar fréttir