10 C
Selfoss

Komum með góða þjónustu og gott fólk

Vinsælast

Fasteignasalan Domusnova opnaði sl. mánudag útibú í Miðgarði að Austurvegi 4 á Selfossi. Formleg opnunarhátíð verður föstudaginn 24. febrúar. Útibússtjóri á Selfossi er Bjarni Stefánsson, lögfræðingur og löggiltur fasteignasala. Með honum starfar Þórir Ólafsson sem aðstoðarmaður en hann er í löggildingarnámi og klárar í haust. Þórir sem búsettur er á Selfossi er búinn að starfa hjá Domusnova í Kópavogi í tvö ár. Þórir segist hafa verið að selja mikið hér fyrir austan en hann hefur keyrt á milli. Hann var spurður hver hefði verið kveikjan að því að fasteignasalan ákvað að opna útibú á Selfossi.

„Ég benti eigendunum á húsnæðið hérna við Austurveginn sem losnaði. Þeir komu hingað austur og skoðuðu það og sáu að staðsetningar- og starfslega passaði þetta fullkomlega. Svo var bara kýlt á þetta og allt gerðist frekar hratt. Það eru allir frekar spenntir fyrir þessu. Við höfum verið að selja mikið hérna fyrir austan þá bæði sumarhús og íbúðarhúsnæði. Við höfum verið að selja alveg austur að Vík og því mun útibúið á Selfossi koma til með að efla mjög starfsemi okkar á svæðinu.

Núverandi eigendur með Hauk Halldórsson í fararbroddi hafa rekið fasteignasöluna á fjórða ár eða frá árinu 2013. Starfsmönnum hefur á þessum tíma fjölgað úr þremur í tuttugu og átta og vöxturinn því verið ævintýralegur. Aðalskrifstofa fyrirtækisins er á Nýbýlavegi 8 í Kópavogi.

Þórir segir að með þessari nýju aðstöðu geti hann stækkað svæðið sitt hér fyrir austan og e.t.v. farið eitthvað austar og í sumarbústaðina. „Maður mun samt alltaf vera með annan fótinn í bænum líka. Markaðsvæðið okkar er hérna fyrir austan en samt í raun á miklu stærra svæði. Það fer bara eftir því hvað menn vilja auglýsa sig langt. Það getur verið langt að fara og spurning hvað menn vilja keyra langt. Það er ekkert ómögulegt í því sambandi. Domusnova hefur í raun dekkað mjög stórt svæði, alveg frá Reykjanesi og hingað austur og jafnvel upp á Akranes.“

„Við komum hingað inn á markaðinn á Selfossi með góða þjónustu og reynt fólk. Við erum með reynda lögfræðinga og sölumenn og notumst við stöðluð vinnubrögð til að þjóna viðskiptavinum okkar sem best. Ég hlakka til að fara að vinna í mínum heimabæ hér á Selfossi og taka á móti Sunnlendingum.“

Þórir var að lokum spurður hvernig fasteignamarkaðurinn á Suðurlandi hefur verið að þróast upp á síðkastið?

„Fasteignaverð hefur verið að hækka hér síðasta árið eins og alls staðar á landinu. Þetta gengur í bylgjum en er að hækka í úthverfum og í bænum. Maður sér að það er að hafa áhrif hér líka.“

Nýjar fréttir