10 C
Selfoss

28 sunnlensk framúrskarandi fyrirtæki

Vinsælast

Creditinfo veitti 25. janúar sl. framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar á Hilton Reykjavík Nordica fyrir rekstrarárið 2015. Í ár fengu 624 fyrirtæki viðurkenningu, um 1,7% allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Í hópi þessara fyrirtækja voru 28 af Suðurlandi. Vinnslustöðin hf. Í Vestmannaeyjum er efst sunnlenskra fyrirtækja á listanum, í 35. sæti.

Þau fyrirtæki sem komast á lista framúrskarandi fyrirtækja eiga það sameiginlegt að vera með sterkar stoðir og stöðugleika í sínum rekstri. Þau eru jafnframt líkleg til að efla hag hluthafa og fjárfesta.

Sunnlensku fyrirtækin
Í flokki lítilla fyrirtækja fékk Nesey ehf. í Skeiða- og Gnúpverjahreppi viðurkenningu. Auk þess Vélaverkstæðið Þór ehf., Köfun og öryggi ehf., Krissakot ehf. og Þekkingarsetur Vestmannaeyja ses í Vestmannaeyjum.

Þrjú fyrirtæki í Bláskógabyggð hlutu viðurkenningu í flokki meðalstórra fyrirtækja en þau eru Gullfosskaffi ehf., Hótel Geysir ehf. og Gufuhlíð ehf. Þrjú fyrirtæki í Sveitarfélaginu Árborg fengu viðurkenningu í þessum flokki: Fossvélar ehf., TRS ehf., og Guðmundur Tyrfingsson ehf. Einnig Eldhestar ehf. og Kjörís ehf. í Hveragerði, E. Guðmundsson ehf. og Höfðabrekka ehf. í Mýrdalshreppi, Þjótandi ehf. í Rangárþingi ytra, Bær ehf. í Skaftárhreppi, Landsstólpi ehf. í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Jarðefnaiðnaður ehf. í Sveitarfélaginu Ölfusi. Fjögur fyrirtæki í Vestmannaeyjum fengu viðurkenningu í þessum flokki en þau eru: Bergur ehf., Skipalyftan ehf., Frár ehf. og Fagranes útgerð ehf.

Tvö fyrirtæki í Sveitarfélaginu Árborg fengu viðurkenningar í flokki stórra fyrirtækja, Jáverk ehf. og Set ehf. auk þriggja fyrirtækja í Vestmannaeyjum, en þau eru Vinnslustöðin ehf., Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Ós ehf.

Nýsköpun verðlaunuð í fyrsta sinn
Í ár var veitt viðurkenning fyrir nýsköpun í rótgrónu fyrirtæki í fyrsta sinn. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá öllum fyrirtækjum, ekki bara sprotafyrirtækjum. Sérstök dómnefnd, skipuð fulltrúum allra aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins (SI, SVÞ, SFF, SFS, Samorku og SAF), valdi Þorbjörn hf. í Grindavík. Enn fremur voru tilnefnd eftirfarandi fyrirtæki: Hampiðjan, Icelandair Group, Bláa lónið og Reiknistofa bankanna.

Grillmarkaðurinn hf. fékk viðurkenningu fyrir að vera yngsta fyrirtækið í erfiðasta atvinnugeiranum, en hæsta vanskilahlutfall fyrirtækja er í starfsemi veitingahúsa- og gististaða. Félagið var stofnað árið 2011 og hefur reksturinn gengið mjög vel frá upphafi.

Fálkinn hf. fékk jafnframt viðurkenningu fyrir að færast upp um flest sæti milli ára eða um 364 sæti. Félagið var í sæti 648 í fyrra en er nú í sæti 284 á listanum.

Nýjar fréttir