Þann 28. janúar eru liðin 110 á frá því að Sláturfélag Suðurlands var stofnað á fundi við Þjórsárbrú. Sérstök nefnd boðaði fulltrúa úr öllum hreppum Árnes- og Rangárvallasýslu þar sem samþykkt var að stofna félagið. Seinna þetta sama ár bættust fulltrúar úr Vestur-Skaftafellssýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Sláturfélag Suðurlands er framleiðslusamvinnufélag í eigu bænda, þar gilda reglur samvinnufélaganna einn maður, eitt atkvæði. Bændur eru almennt stoltir af þessu myndarlega félagi sínu. Á seinni árum hefur samvinnufélagsformið átt erfiðara uppdráttar hér á landi en áður var – þó eru um 35.000 Íslendingar í samvinnufélögum í landinu sem er ríflega 10% þjóðarinnar.
Það eru ekki mörg félög og fyrirtæki sem hafa verið starfrækt jafn lengi á Íslandi. SS vörumerkið er tákn um gæði enda nota þeir slagorðið „Fremstir fyrir bragðið“ sem eru orð að sönnu. Til marks um árangur félagsins má benda á SS-pylsuna, en talið er að markaðshlutdeild hennar á Íslandsmarkaði sé á milli 80 og 90%. Hún ekki aðeins vinsæl meðal Íslendinga heldur nýtur einnig ómældra vinsælda hjá ferðamönnum.
Sláturfélag Suðurlands er stærsti atvinnurekandi á Suðurlandi á almennum markaði. Þannig veitir Sláturfélagið um 170 manns vinnu á Hvolsvelli, um 70 manns í kjúklingasláturhúsinu Reykjagarði á Hellu og um 25 manns á Selfossi en um 140 manns starfa þar við slátrun á haustin.
Það var ógleymanleg stund þegar að undirritaðir voru samningar um að flytja kjötvinnslu Sláturfélagsins frá Reykjavík á Hvolsvöll árið 1991. Undirbúningsvinnan var mikill og margs konar samningar gerðir. Þáverandi ríkisstjórn kom að málinu og stjórn félagsins var samstíga undir farsælli stjórn Páls Lýðssonar í Litlu Sandvík. Bændur sættust á að leggja niður nýlegt sláturhús á Hvolsvelli sem þeir höfðu lengi barist fyrir, en fjárfestingin nýttist ekki eins og skyldi. Þess má til gamans geta að samskipti mín og forstjóra Sláturfélagsins fóru gjarnan fram í gegnum faxtæki sem þótti undratæki í þá daga. Enn eigum við í ánægjulegum samskiptum þar sem við skrifuðum á fimmtudaginn undir viljayfirlýsingu þar sem Sláturfélagið heitir að byggja 24 íbúðir á Hvolsvelli og sveitarstjórn heitir að útvega lóðir, m.a. með nýju deiliskipulagi og gatnagerð.
Óhætt er að segja að Sláturfélag Suðurlands sé í sífelldri þróun. Kjötiðnaðarmeistarar félagsins eru margfaldir meistarar í sinni grein. Það er skoðun mín að engir séu betur til þess fallnir en kjötiðnaðarmeistarar og matreiðslumeistarar að kynna íslenskar matvörur sem eru í raun í sérflokki. Þess vegna væri gaman að sjá Sláturfélagið opna sælkeraverslun á Hvolvelli þar sem hægt væri að kaupa þessa gæðavöru. Ýmis konar matvara er upplagður minjagripur í þeim straumi ferðamanna sem fer um héraðið okkar. Þá er ég viss um að í framtíðinni mun starfsemin aukast og eflast hér á Hvolsvelli. Það gleymist oft í önn dagsins að það er mjög gott fyrir ungt fólk að búa á stöðum eins og Hvolsvelli. Það er þægilegt vera með börn og úrvals aðstaða og þjónusta fyrir fjölskyldufólk í sveitarfélaginu.
Íbúar sveitarfélagins Rangárþing eystra og aðrir íbúar á félagssvæði Sláturfélags Suðurland gleðjast yfir þessum tímamótum og óska eigendum, stjórnendum og starfsfólki hjartanlega til hamingju á þessum tímamótum.