7.3 C
Selfoss

Virkilega þroskandi að vera á heimavist

Vinsælast

Eftir þrjú og hálft ár á heimavist á ég oft erfitt með að svara spurningunni um það hvar ég bý. Ég eyði átta til níu mánuðum ársins á vistinni og finnst því rökréttast að segjast búa þar þrátt fyrir að lögheimili mitt sé annars staðar og ég segist vera annars staðar frá. Þar sem rassinn hvílir þar er heimili, sagði Púmba vinur okkar einu sinni. Rassinn minn hvílir núna mest megnis í Menntaskólanum að Laugarvatni.
Ég get auðvitað ekki talað fyrir hönd íbúa allra heimavista á landinu enda eru þær jafn mismunandi og þær eru margar. Hver og einn einstaklingur hefur líka sína eigin upplifun af því að búa á heimavist, það hentar fólki mis vel. Þau sem hafa búið á heimavist eiga það samt sameiginlegt að vera oft spurð um marga þætti tengda lífinu á vistunum. Ég ákvað því að skrifa grein um það hvernig mín upplifun er að búa á slíkri vist og vona að þessi grein svari flestum spurningum ykkar. Því fyrir flesta sem hafa aldrei búið á heimavistum er frekar erfitt að ímynda sér þetta umhverfi, enda er það frekar einstakt og erfitt að lýsa því í orðum. Ég ætla að reyna mitt besta.

Að vera á heimavist
Að vera á heimavist er fyrst og fremst virkilega þroskandi. Innan árganganna og allra á vistinni myndast öðruvísi vinabönd heldur en gengur og gerist í flestum öðrum skólum. Það segir sig örlítið sjálft þar sem þú ert með vinum þínum frá því þú vaknar um morguninn, ferð með þeim í morgunmat svo eruð þið saman í tíma, farið svo saman í kaffi eftir skóla, kvöldmat og kvöldkaffi. Um nóttina sefurðu svo við hliðina á herbergisfélaganum þínum. Inn á milli gerast svo hlutirnir sem skipta máli en í grófum dráttum er líf þeirra sem búa á vistinni svona.

Skólinn sem ég er í er í kringum 150 manna skóli sem staðsettur er á Laugarvatni, rétt um klukkustund austur frá Reykjavík. Mikill meirihluti nemenda er á heimavistinni, færri en 10 nemendur búa ekki á henni. Á vistinni ræðurðu hvort þú sért í einstaklingsherbergi eða með herbergisfélaga. Ég ákvað að vera í tveggja manna herbergi og tel mig frekar heppna að hafa verið með sama herbergisfélaganum síðan ég byrjaði í skólanum haustið 2013. Við sofum hlið við hlið og höfum gert það frá upphafi. Mitt persónulega pláss er því frekar lítið en þannig er það hjá flestum sem eru á heimavist. Fólk tæklar það mismunandi vel. Lykillinn að góðri sambúð er að vera sveigjanleg, umburðarlynd og bera virðingu fyrir þörfum herbergisfélagans. Vissulega hefur orðið ágreiningur á milli okkar en ekkert alvarlegra en pirringur sem gengur og gerist hjá venjulegu fólki. Alvarlegustu rifrildin okkar eru líklegast þau þegar við rífumst um hver eigi að slökkva ljósið eftir að við erum komnar upp í rúm, ég tapa langoftast.

Erum náin og þekkjumst mjög vel
Það er að vissu leyti mjög erfitt að vera svona mikið með sömu manneskjunni en maður þarf bara að gefa ákveðið rými og passa að vera ekki of mikið saman. Þegar við vorum að byrja í skólanum þekktust allir í árganginum lítið sem ekkert enda komum við úr öllum áttum. Við vorum frekar feimin og vissum ekki alveg hvernig við áttum að haga okkur. Sá tími er liðinn. Núna erum við mjög náin, þekkjumst mjög vel og vitum stundum óþægilega mikið um hvort annað. Stundum getur það verið óþolandi að fá lítið persónulegt rými en oftast er notalegt að hafa vini sína nálægt sér. Þær örfáu stundir sem ég þarf að fá pásu frá umheiminum læsi ég mig inni í herbergi, fer í langa sturtu, kveiki á tónlist og dansa alsber og syng ein inn í herbergi. En mér þykir mjög vænt um alla. Það er mjög dýrmætt að fá að vera í svona stórri fjölskyldu sem er full af fólki á þínum aldri. Við erum hópur fólks með mismunandi áhugamál, hæfileika og skoðanir. Það þroskar okkur virkilega mikið að vera svona mikið saman og læra að meta hvert annað. Virðing gagnvart náunganum er það sem maður lærir langmest. Það fer samt algjörlega eftir skólum og fólki hversu náið það er á vistunum.

Svo koma stundum kvöld þar sem við viljum fá næturgest. Þá er ekkert annað í stöðunni en að hinn herbergisfélaginn reddi sér gistingu í öðru herbergi. Talandi um að gista í öðru herbergi þá er einmitt algengasta spurningin hvort það séu ekki allir búnir að sofa hjá öllum. Sko, nei. Þrátt fyrir að við séum mjög náin þá er þetta ekki einhver kynlífskommúna. Auðvitað gerast hlutir og sambönd myndast eins og annars staðar. Að sumu leyti er kannski auðveldara að laumast á milli herbergja en gerist og gengur en við kunnum nú að haga okkur eins og annað fólk, myndi ég halda. Ég held að mesti munurinn á því að vera í sambandi þegar maður býr heima hjá sér og svo á heimavist sé sá að foreldrarnir frétta oft ekki af samböndunum fyrr en löngu seinna. Stundum aldrei.

Það gilda ákveðnar reglur
Næst á eftir þessari spurningu er ég oftast spurð að því hvort við séum ekki bara að drekka öll kvöld. Já, sko nei alls ekki. Þetta er leiðinlegur stimpill sem heimavistir hafa fengið á sig. Það er svo margt sem er eiginlega erfiðara að gera á vistum en þegar maður býr heima hjá sér og getur bara skroppið til vinar síns eða ef til vill á barinn. Þarna erum við öll saman í samfélagi þar sem gilda ákveðnar reglur. Það er húsbóndi, húsfreyja og svo vistarverðir. Engar áhyggjur, þau banka ekki upp á í tíma og ótíma á öll herbergi til þess að athuga hvort það sé farið eftir öllum reglum. En ég sver þau eru með næmara lyktarskyn en hundar þegar kemur að áfengi. Mér þykir virkilega leiðinlegt að frétta af fólki sem vildi fara á Laugarvatn eða á heimavist annars staðar en fékk það ekki vegna þess að foreldrarnir héldu að þar væri bara bruggaður landi og drukkið öll kvöld. Það eru gamlir, löngu liðnir tímar og þekkjast ekki lengur. Mjög mikilvægt er að breyta þessum stimpli.

Ef nemendur eru að drekka óhóflega öll kvöld þá er það vandamál þeirra og eitthvað sem þarf að ræða við viðkomandi, enda engum hollt. Áfengi er bannað á öllum heimavistum á landinu. Þrátt fyrir það djömmum við nú samt alveg og við kunnum svo sannarlega að hafa gaman. Það er alltaf erfitt að gera öllum til geðs og foreldrar vilja oft herða þá gæslu sem er til staðar. Þetta snýst líka um traust foreldranna til barnanna sinna og þeirra ákvarðana sem þau vilja taka. Því það er fátt meira þroskandi en að taka rangar ákvarðanir og þurfa að leysa úr þeim upp á eigin spýtur. Svartir sauðir sem skemma fyrir fjöldanum leynast alls staðar, það vita allir. En það er ekki að ástæðulausu að mörg systkini hafa farið á Laugarvatn, það sýnir traustið sem langflestir foreldrar bera til skólans og þeirra sem vinna í honum. Starfsfólkið allt sem sér um að daglegt líf gangi vel fyrir sig er nefnilega allt fólk sem er að reyna að gera sitt besta í sínu fagi. Félagslífið á heimavistum er magnað og engu öðru líkt. En það er ekkert sérstaklega gaman þegar húsbóndinn er ósáttur, ó belive you me.

Ó elsku hefðirnar
Svo eru það hefðirnar, ó elsku hefðirnar. Þeim fer fækkandi með hverju ári en það er alltaf gaman að skapa nýjar og skemmtilegar hefðir. Allir heimavistarskólar hafa sín sérkenni og hefðir sem hafa ríkt í ótal ár. Kvöldvökur, bíókvöld, spilakvöld, kaffihúsakvöld og margt fleira er eitthvað sem þekkist í lang flestum heimavistarskólum. Kraftakeppnir, vatnsslagir, jólahlaðborð og svo mætti lengi telja. Við horfum öll saman á landsleiki, Eurovision og gerum hópverkefni eða lærum saman í setustofunum. Þegar það er komið vor lærum við oft á grasinu fyrir utan vistina. Svo er ekkert sem mér þykir vænna um í heiminum heldur en þær stundir þegar við tölum saman lengst fram á nótt um allt og ekkert.

Það er svo margt sem ég á eftir að sakna við heimavistina þegar ég útskrifast nú í vor. Mér efst í huga fyrir utan alla vinina er líklega þvottahúsið. Þar vinna tvær yndislegar konur sem þvo af okkur og svo fáum við þvottinn okkar samanbrotinn daginn eftir, lúxus. Mér finnst líka ótrúlega þægilegt að þurfa ekki að ganga frá matnum þegar ég er búin að borða eða vaska upp. Þægilegt að geta farið bara í morgunmat, fengið sér að borða af morgunverðarhlaðborðinu og gengið svo bara frá diskinum. Kostirnir við að búa á heimavist vega svo miklu þyngra en gallarnir. Það hentar auðvitað ekki öllum að fara svona snemma frá mömmu og pabba. Við sjáum þau flest ekki nema bara um helgar en mörg hitta foreldra sína ekki nema í vetrarfríinu eða á jólunum og páskunum. Heimavist er samt eitthvað sem ég held að allir hefðu gott af að prófa. Nauðsynlegt er að læra að bera ábyrgð á sjálfum sér sem fyrst og bera virðingu fyrir öðrum en það lærir maður svo sannarlega á heimavist, hvort sem það tengist náminu eða félagslífinu. Heimþráin hverfur eftir smá því oh my lord hvað þetta er ótrúlega gaman. Getið líka rétt ímyndað ykkur hversu þægilegt það er að vakna rétt áður en skólinn byrjar, hlaupa niður í matsal og ná sér í banana og svo beint í tíma. Allt í sama húsnæðinu á innan við 10 mínútum, draumur.

Inger Erla Thomsen

(Greinin birtist fyrst í Framhaldsskólablaðinu).

Nýjar fréttir