-5 C
Selfoss

Frískir Flóamenn í samstarf við Jötunn Vélar

Vinsælast

Jötunn Vélar og hlaupahópinn Frískir Flóamenn gerðu nýlega með sér samning um samstarf og fjárstuðning. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Jötunn Véla við Austurveg á Selfossi í liðinni viku. Um er að ræða fimm ára samning sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni hreyfingu og útivist almennings. Það verður m. a. gert með því að halda götuhlaup á Selfossi. Hlaupið mun heita „Jötunnhlaupið“ og verður haldið í fyrsta sinn 1. maí í vor.

Í boði verða 5 og 10 km hlaup með tímatöku. Vegalengdir verða löglega mældar af mælingarmönnum Frjálsíþróttasambands Íslands. Hefjast hlaupin og enda við verslun Jötunn Véla við Austurveg 69 á Selfossi.

Frískir Flóamenn munu sjá um kynningu, skipulagningu og framkvæmd hlaupsins í samvinnu við Jötunn Vélar, en fyrirtækið leggur til aðstöðu á hlaupadegi og fjárstuðning vegna kostnaðar við hlaupið.

Frískir Flóamenn eru með hlaupaæfingar á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:15 og á laugardögum kl. 10. Þjálfari er Sigmundur Stefánsson. Æfingar eru jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna. Allir eru velkomnir og ekkert gjald er, bara að reima á sig skóna og mæta á æfingar til að undibúa sig fyrir Jötunnhlaupið 1. maí.

Nýjar fréttir