6.1 C
Selfoss

Móttaka flóttafólks í Árborg og Hveragerði

Vinsælast

Núna í vikunni eru væntanlegar til landsins þrjár fjölskyldur sýrlenskra flóttamanna sem verða búsettar í Hveragerði og á Selfossi, ein í Hveragerði og tvær á Selfossi, alls 21 einstaklingur. Fjölskyldurnar eru allar að flýja stríðsátök í sínu heimalandi, Sýrlandi, og hafa dvalið um langa hríð í flóttamannabúðum í Líbanon við erfiðar aðstæður. Fólkið er hluti af stærri hópi sem ríkisstjórnin ákvað í fyrra að taka á móti.

Talsverð undirbúningsvinna hefur átt sér stað hjá sveitarfélögunum og Rauða kross deildunum á svæðinu. Sveitarfélögin hafa ráðið starfsmann í tímabundið starf til að stýra verkefninu og aðstoða hina nýju íbúa við að aðlagast samfélaginu. Leitað hefur verið í smiðju þeirra sveitarfélaga sem hafa reynslu af móttöku flóttafólks til að læra hvað hefur gefist vel og hvað hefur mátt betur fara.

Sveitarfélögin hafa útvegað íbúðir fyrir fjölskyldurnar og Rauði krossinn sér um að búa þær húsbúnaði, allt í samræmi við samninga við velferðarráðuneytið sem fer með málefni flóttafólks. Skólar og leikskólar sem munu taka á móti börnunum í hópnum hafa hafið sinn undirbúning og ríkir eftirvænting meðal starfsfólks og bekkjarfélaga barnanna.

Velvild margra í samfélaginu í garð verkefnisins hefur verið greinileg, margir hafa haft samband við Rauða krossinn og boðið fatnað, húsgögn og annan búnað til heimilishalds. Aðrir hafa boðist til að aðstoða fjölskyldurnar, s.s. með því að gerast stuðningsfjölskyldur, eða taka að sér afmörkuð verkefni. Þá hafa félagasamtök, t.d. Kvenfélag Selfoss, boðið fram sína krafta til ýmissa verkefna. Það er ómetanlegt að skynja þessa jákvæðni í samfélaginu og áhuga íbúa á að taka vel á móti fjölskyldunum.

Við viljum þakka íbúum fyrir jákvæðni og velvild í garð okkar nýju íbúa og hvetja alla til að taka vel á móti þeim.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar

Nýjar fréttir