13.4 C
Selfoss

Áhyggjur af hjúkrunarþjónustu í Árborg

Vinsælast

Fjallað var um fyrirhugaða lokun hjúkrunarheimilisins að Kumbaravogi á fundi bæjarráðs Árborgar í síðustu viku. Þar var lögð var fram yfirlýsing heilbrigðisráherra um lokun Kumbaravogs og hlutaúttekt Landlæknisembættisins, mat á gæðum og öryggi þjónustu frá desember 2016.

Í fundargerð bæjarráðs kemur eftirfarandi fram að Unnur Þormóðsdóttir, formaður færni- og heilsumatsnefndar Suðurlandsumdæmis, hafi komið inn á fundinn og farið yfir stöðu mála hvað varðar lausn á vanda þeirra íbúa sem þurfa nú að fara frá Kumbaravogi. Bæjarfulltrúarnir Kjartan Björnsson og Arna Ír Gunnarsdóttir komu einnig inn á fundinn undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkti síðan eftirfarandi ályktun:
„Bæjarráð Árborgar harmar það að ekki skuli hafa verið unnt að halda rekstri Kumbaravogs áfram þar til nýtt hjúkrunarheimili verður tilbúið. Bæjarráð lýsir yfir áhyggjum af stöðu mála hvað varðar hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða á meðan nýtt heimili hefur ekki verið tekið í notkun. Ljóst er að mikið mun mæða á heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu og að möguleikar á hvíldarinnlögnum munu takmarkast verulega. Bæjarráð hvetur ráðuneytið til að auka fjárframlag til heimahjúkrunar og minnir á óafgreitt erindi Sveitarfélagsins Árborgar þar sem ráðuneytinu var boðið upp á samning um dvöl notenda dagdvalar næturlangt á Vinaminni, en slíkt gæti létt undir heimahjúkrun og dregið að einhverju leyti úr þörf fyrir hvíldarinnlagnir. Bæjarráð óskar eftir því að vinnu við undirbúning að byggingu nýs hjúkrunarheimilis verði flýtt svo sem kostur er. Bæjarráð ítrekar það sem fulltrúar sveitarfélagsins hafa lagt áherslu á að gera þurfi ráð fyrir að nýtt heimili verði stærra en 50 rými, heimilið þyrfti að vera 60 rými með möguleika á stækkun í 80 rými. Bæjarráð þakkar fyrir upplýsingar um stöðu mála hvað varðar flutning íbúa á Kumbaravogi í önnur rými og hvetur til þess að óskir íbúa verði virtar og að ákvarðanir verði teknar í samráði við þá og aðstandendur þeirra. Bæjarráði þykir miður að einum af stærri vinnustöðum sveitarfélagsins sé lokað og vonast til þess að starfsfólki gangi vel að finna önnur störf við hæfi. Þá fer bæjarráð þess á leit að ráðuneytið tryggi að Kumbaravogi ehf verði gert kleift að ganga frá starfslokum í samræmi við samninga.“

Nýjar fréttir