8.9 C
Selfoss

Stækkun félagsaðstöðu eldri borgara og dagdvalar

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg samþykkti nýlega kaup á 962 fermetra viðbyggingu við Grænumörk 5, Selfossi. Félagsaðstaða eldri borgara stækkar þar um 450 fermetra og dagdvöl sem nú er í Grænumörk 5 flyst í nýju bygginguna í mun rýmra húsnæði, eða um 470 fermetra. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist innan tíðar og að sá hluti byggingarinnar sem sveitarfélagið festir kaup á verði tilbúinn vorið 2018. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Árborgar.

Mjög brýnt var orðið að stækka félagsaðstöðuna, enda fjölgar eldri borgurum sem taka þátt í slíku starfi stöðugt og núverandi aðstaða löngu orðin of lítil. Þá var dagdvölin í afar óhentugu rými fyrir slíka starfsemi, en það mun nýtast sem hjónaíbúð þegar dagdvölin flytur.

Austurbær ehf. sem byggir aðstöðuna í samvinnu við Jáverk mun samhliða þessu verkefni byggja íbúðir sem ætlaðar eru eldri borgurum en þær verða í sömu byggingu og félagsaðstaðan. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að 25 íbúðir fari í almenna sölu en með hverri íbúð fylgir bílastæði. Í síðari áfanga er áformað að bæta við 35 íbúðum til viðbótar.

Nýjar fréttir