1.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Hannyrðahornið Létt kaðlapeysa

Létt kaðlapeysa

0
Létt kaðlapeysa

Við fáum seint nóg af fallega þýska ullar­garninu okkar. Áferðin er einkar falleg, það er skemmtilegt að prjóna úr því, garn­ið má þvo í þvottavél og það er yndis­lega mjúkt að klæðast flíkum úr því. Þetta garn fæst í þremur ólíkum gróf­leikum, Royal er fyrir prjóna 4-5 og hentar í allar léttlopa­uppskriftir, Dream er fyrir prjóna 6-7 og hentar því í allar hespu­lopauppskriftir og Saphira er fyrir prjóna 8-9 og við ákváðum að prjóna eina peysu úr því.

Uppskriftin er í stærð M.
Efni: Saphira ullargarn 650 gr. (13 dk), sokkaprjónar nr. 6 og 8, 60 sm prjónar nr. 6 og 8, prjónamerki.

Uppskrift:
Bolur: Fitjið upp 124 l á prjóna no 6 og prjónið stroff, 1 sl, 1 br, alls 12 umferðir. Skiptið yfir á prjóna no 8 og aukið í fyrstu umferð um 12 lykkjur jafnt yfir umferðina. Prjónið slétt prjón þar til bolurinn mælist 45 sm. Setjið 6 fyrstu l umferðar á hjálparnælu, prjónið 62 l setjið næstu 6 á hjálparnælu og prjónið 62 l. Geymið bolinn.

Ermar: Fitjið upp 24 l á prjóna no 6 og prjónið stroff, 1 sl, 1 br, alls 8 umferðir. Skiptið yfir á prjóna no 8 og aukið um 6 l jafnt yfir fyrstu umferðina. Prjónið áfram slétt prjón en auk­ið um 2 l á 8 umferða fresti, 1 fyrir síð­ustu l umferðar og 1 eftir fyrstu l umferðar, alls 8 sinnum. Þá eru 46 l á prjón­inum. Setjið 3 síðustu l umferðar og 3 fyrstu l á hjálpar­nælu. Prjónið aðra ermi eins.

Boðungur: Prjónið nú bol og ermar saman þannig að fyrsta l á ermi er prjónuð brugðin og síðasta lykkja ermarinnar er líka brugðin. Fyrstu 4 l á bolnum eru sléttar, 5. lykkjan er prjónuð brugðin, áfram slétt, en 5. síðasta l á bolnum er prjónuð brugðin og svo er næsta ermi tengd eins og sú fyrri á prjóninn. Þessar brugnu lykkjur afmarka kaðal sem nær yfir 4 l.
Í næstu umferðum eru úrtaka og kaðlar gerð jafnhliða og sömu 4 umferðir endurtekar:
1. umf. Prjónaðar eru sl yfir sl l og br yfir br l en um leið er gerð úrtaka þannig: Þegar komið er að ermi eru síðustu 2 l á undan br lykkjunni prjónaðar saman, 1 br, 4 sl, 1 br, og svo 2 saman þannig að fyrri l er tekin óprjónuð og seinni l steypt yfir, þannig myndast halli og eins konar kantur við kaðalinn.
2. umf. Sl yfir sl l og br yfir br l.
3 umf. Úrtaka eins og í 1 umf en einnig eru gerðir kaðlar. Athugið hallann á köðlunum, það er fallegt að láta þá halla frá ermi að bol. Fyrsti kaðall er gerður þannig að fyrstu 2 l eru geymdar og hafðar fyrir aftan þegar næstu 2 eru prjónaðar, prjónið þær sem voru geymdar. Þegar seinni kaðall ermarinnar er prjónaður eru lykkjurnar 2 hafðar fyrir framan þegar næstu 2 eru prjónaðar og þær svo prjónaðar beint á eftir.
4. umf eins og umf 2.
Endurtakið þessar 4 umferðir þar til 52 l eru eftir á prjóninum. Skiptið yfir á sokkaprjóna no 6 og prjónið stroff, 1 sl, 1 br, alls 12 umferðir, fellið laust af.

Ábending: Þegar gengið er frá endum í þetta þykku garni er gott að kljúfa garnið í þrennt og ganga frá í þremur hlutum, þannig er minni hætta á að sjáist hvar gengið hefur verið frá.
Vindið létt úr peysunni og leggið til þerris.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir