2.9 C
Selfoss

Ljóðasýning Arnars Jónssonar í Leikhúsinu á Selfossi

Vinsælast

Bókabæirnir austanfjalls bjóða upp á ljóðaupplestur Arnars Jónssonar leikara í Leikhúsinu á Selfossi, sunnudaginn 18. maí kl. 15.00.

Arnar Jónsson er einn af ástsælustu leikurum þjóðarinnar. Leikferill Arnars spannar marga áratugi og hann hefur leikið á flestum sviðum íslenskra leikhúsa, í útvarpi og sjónvarpi bæði sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Hann leikstýrði m.a. nemendasýningu á Selfossi 1985 eða 1986 á Sem yður þóknast eftir William Shakespeare.

Hann hefur líka getið sér gott orð fyrir einstakan flutning á ljóðum og gaf nýlega út plötuna Ljóðastund með Arnari. Þar fer hann með nokkur af sínum uppáhaldsljóðum. Þennan flutning hefur hann svo gert að sýningu sem hefur verið sýnd í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þar fjallar hann um mikilvægi ljóðanna fyrir sig persónulega, hvernig þau hafa snert hann gegnum tíðina og segir sögur af því hvernig þau tengjast hans lífshlaupi.

Mikilvægi ljóðsins í samtímanum er ótvírætt. Það er okkur mikilvægt til að miðla reynslu, tengja fólk saman sem og að veita skjól. Bókabæjunum austanfjalls er það sönn ánægja að geta boðið upp á viðburði sem tengjast ljóðinu og ljóðaupplestri. Margmála ljóðakvöldið sem haldið var 20. mars síðastliðinn í Listasafni Árnesinga var afar vel sótt og gleðilegt að finna fyrir hljómgrunn fyrir viðburðum tengdum ljóðinu, ljóðagerð og upplestri,“ segir í tilkynningu frá Bókabæjunum austanfjalls.

„Ljóðið ratar til sinna og það á sannarlega við um mig. Ljóðið fann mig mjög ungan. Tónlist tungumálsins endurómar í ljóðinu – auk hugsunar og tilfinninga. Þannig er öll verund mannskepnunnar undir í knöppu formi margvíslegra mynda, segir Arnar sjálfur um kynni sín af ljóðlistinni.

Gestir á upplesturinn mega leggja til frjáls framlög sem renna til Bókabæjanna en annars er aðgangur ókeypis.

Léttar veitingar verða í boði Bókabæjanna.

Nýjar fréttir