97. ársfundur Sambands sunnlenskra kvenna var haldinn í Þingborg laugardaginn 26. apríl sl. Innan SSK starfa 25 kvenfélög og í þeim eru 864 konur. Það hefur verið til siðs í 15 ár að stjórnir kvenfélaganna mega tilnefna konu úr sínum röðum sem þeim hefur þótt skara fram úr með störfum sínum. Það er síðan valnefnd skipuð þremur konum sem fær það vandasama verk að velja eina af mörgum hæfum konum. Í ár bárust fimm tilnefningar og var valið erfitt, því vissulega eru allar konur þess verðar að verða kvenfélagskona ársins, en það er aðeins ein sem stendur upp úr að lokum á hverju ári. Kvenfélagskona ársins 2024 var valin Gíslína Sigurbjartsdóttir í Kvf. Sigurvon í Þykkvabæ. Hún gekk snemma til liðs við kvenfélagið og hefur alltaf tekið virkan þátt í starfsemi þess í leik og starfi. Þá hefur hún verið þeim góð fyrirmynd í hvívetna. Kvenfélagskona ársins fær til varðveislu í eitt ár kökukefli, sem er farandgripur og á það eru rituð nöfn Kvenfélagskonu ársins frá upphafi.

Ljósmynd: Aðsend.
Á ársfundinum voru fimm konur gerðar að heiðursfélögum SSK. Það voru Rosemarie Brynhildur Þorleifsdóttir, Kvf. Gnúpverja, Guðbjörg Guðmundsdóttir, Kvf. Gaulverjabæjarhrepps, Þórunn Ragnarsdóttir, Kvf. Einingu í Holtum, Brynja Bergsveinsdóttir, Kvf. Einingu í Hvolheppi og Guðrún Jónsdóttir, Kvf. Lóu í Landsveit. Þær fengu allar heiðursskjal og blómvönd. Allar hafa þessar konur verið einstaklega duglegar að sitja í stjórn og nefndum SSK til lengri og skemmri tíma og verið félaginu mjög dýrmætar.
„Við erum þakklátar fyrir að þær skyldu velja að ganga í kvenfélag í fyrsta lagi og síðan að þær skyldu verða svona áhugasamar og getað gefið SSK svona mikinn hluta af tíma sínum, það verður aldrei fullþakkað. Sem betur fer erum við hjá Sambandi sunnlenskra kvenna einstaklega lánsamar með hvað við höfum margar hæfileikaríkar og frábærar konur í kvenfélögunum sem alltaf eru tilbúnar að gefa sinn tíma í okkar mikilvæga starf. Góð kvenfélagskona er gulli betri,“segir í tilkynningu frá sambandinu.