6 C
Selfoss

Heimsins besta og einfaldasta pasta

Vinsælast

Guðbjörg Rósa Björnsdóttir er matgæðingur vikunnar.

Ég vil þakka fyrir áskorunina og deili hér uppskrift að einföldu og góðu pasta.

Pasta

350 ml. Hvítvín + eitt glas fyrir kokkinn.

350 gr. smjör (kalt skorið í teninga)

100-200 gr. rifinn parmesanostur

Rjómi, salt og pipar eftir smekk.

Ferskt pasta með fyllingu (best ef það er heimatilbúið en þá er þetta ekki lengur einfalt)

Aðferð

Hvítvín soðið niður um helming, smjöri bætt út í í smá skömmtum og hrært vel í á meðan það bráðnar, næst er parmesanostinum skellt saman við, svo rjóma, salti og pipar þar til ykkur finnst sósan fullkomin.

Sjóðið pastað. Þegar pastað er tilbúið er því skutlað út í sósuna. Smart er að setja litla skorna tómata og basil yfir.

Borið fram með góðu brauði og ekki er verra að hafa hvítvín með.

 

Ég verð að láta fylgja uppskrift að sjúklega góðum snúðum sem fáir geta staðist.

Sjónvarpskökusnúðar

700 gr. hveiti

1,5 tsk salt

4 tsk þurrger

80 gr sykur

4 dl volgt vatn

1 dl jurtaolía

Fylling 

3 msk sykur

3 msk. púðursykur

1 msk kanill

Kókostoppur:

100 gr smjör

200 gr púðursykur

70 ml mjólk

150 gr kókosmjöl

Öllum þurrefnum blandað saman í hrærivélaskál, vökvanum hellt út í. Hnoðið rólega í 2-3 mín og svo aðeins hraðar í 2 mín. Látið deigið hefast í 30 mín. Næst er að fletja út deigið, strá sykurblöndunni yfir og rúlla upp. Skerið í hæfilega stóra snúða , látið hefast í 35-45 mín. Gott er að gera kókostoppinn á meðan snúðarnir eru að lyfta sér. Bræðið smjör púðursykur og mjólk saman í potti við meðalhita. Passa að sykurinn sé vel bráðnaður, bætið svo kókosmjölinu út í.

Hitið ofninn í 200 gráður. Bakið snúðana í 5 -6 mínútur. Þá eru þeir teknir út og kókostoppur settur á hvern snúð og bakað aftur í 5-8 mín.

Verið ykkur að góðu.

Ég þakka fyrir áskorunina og langar að skora á mína góðu vinkonu Guðjónu Björk Sigurðardóttur að koma með næstu uppskrift.

Nýjar fréttir