12.3 C
Selfoss

Bryndís Embla og Ásta Kristín með gull á Gautaborgarleikunum

Keppendur Frjálsíþróttadeildar Selfoss stóðu sig frábærlega á Gautaborgarleikunum sem haldnir voru helgina 5.-7. júlí við íslenskar aðstæður, rigningu og rok. Tvenn gullverðlaun, ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun voru uppskeran ásamt Íslandsmeti og fullt af persónulegum bætingum. Þær Bryndís Embla Einarsdóttir og Ásta Kristín Ólafsdóttir náðu þeim frábæra árangri að vinna til gullverðlauna, sú fyrri í kúluvarpi en Ásta í spjótkasti auk þess sem Bryndís Embla setti Íslandsmet í kringlukasti.

13 ára flokkur: Ásta Kristín Ólafsdóttir sigraði glæsilega í spjótkasti á persónulegu meti þegar hún kastaði spjótinu 36,31 m. Magnús Tryggvi Birgisson bætti sig vel í þrístökki þegar hann stökk 10,64 m og hafnaði í 7. sæti og Birkir Aron Ársælsson kastaði spjótinu 31,35 m og endaði í 8. sæti.

15 ára flokkur: Bryndís Embla Einarsdóttir bætti sig verulega í kúluvarpi og var rétt við HSK-metið í flokki 15 ára þegar hún kastaði kúlunni 12,25 m og sigraði. Hún vann til silfurverðlauna í spjótkasti þegar hún kastaði spjótinu 43,19 m og var rétt rúmum metra frá gullverðlaunum, hún kórónaði síðan glæsta frammistöðuna með því að stórbæta sig í kringlukasti og setja Íslandsmet með 750 g kringlu er hún kastaði 38,12 m og hafnaði í 4. sæti. Arndís Eva Vigfúsdóttir bætti sig í hástökki þegar hún vippaði sér yfir 1.52 m og hafnaði í 6. sæti og auk þess kastaði hún kúlunni 10,70 m og hafnaði í 9. sæti.

16-17 ára flokkur: Hjálmar Vilhelm Rúnarsson sýndi hversu fjölhæfur hann er og endaði framarlega í sínum greinum. Hann bætti sinn besta árangur í spjótkasti þegar hann kastaði spjótinu 57,77 m og vann til bronsverðlauna. Í þrístökki bætti hann sinn besta árangur þegar hann stökk 13,62 m og varð í 4. sæti og hann varð í 4.-5. sæti í 100 m hlaupi á tímanum 11,49 s og í kúluvarpi varð hann í 5. sæti en hann varpaði kúlunni 13,99 m. Þorvaldur Gauti Hafsteinsson hljóp 800 m á tímanum 1:58,80 m og varð í 4. sæti og Vésteinn Loftsson kastaði kringlunni 48,32 m og endaði í 7. sæti. Ísold Assa Guðmundsdóttir stökk til 4. sætis í hástökki þegar hún vippaði sér yfir 1,56 m og hún bætti sig í þrístökki þegar hún stökk 10,56 m og varð í 8. sæti. Dagmar Sif Morthens stökk 1,38 m í hástökki sem dugði í 9. sæti og Hugrún Birna Hjaltadóttir stökk 10,04 m í þrístökki og endaði í 10. sæti.

18-19 ára flokkur: Daníel Breki Elvarsson kastaði spjótinu 51,76 m og lenti í 6. sæti og Hanna Dóra Höskuldsdóttir bætti sig í hástökki þegar hún vippaði sér yfir 1,61 m og varð í 8. sæti.

UMFS

Birkir Aron, Hróbjartur og Magnús Tryggvi stóðu sig vel í 13 ára flokki. Ljósmynd/UMFS
Hjálmar Vilhelm vann til bronsverðlauna í spjótkasti. Ljósmynd/UMFS
Bryndís Embla vann til gull- og silfurverðlauna auk þess að setja Íslandsmet. Ljósmynd/UMFS
Ásta Kristín vann spjótkast í flokki 13 ára. Ljósmynd/UMFS

Nýjar fréttir